138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

vaxtabætur.

234. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Mér er ljóst af því bréfi sem mér barst og fleirum að þeir aðilar sem voru ósáttir við að þurfa sjálfir að leggja út fyrir framkvæmdunum og sækja síðan um lán frá Íbúðalánasjóði töldu sig verða fyrir töluverðum kostnaði þar af leiðandi og ákváðu að fara beina leið til síns eigin lífeyrissjóðs. Það kom líka í ljós í því tilfelli að um stórar og miklar framkvæmdir var að ræða.

Ég get verið sammála hæstv. ráðherra í því að eftirlit með þessu getur verið bæði tímafrekt og hugsanlega kostnaðarsamt, en mér þykir samt ástæða til að velta því upp að þegar um er að ræða stórtækar lagfæringar á gömlum húsum vegna raka, lekaskemmda eða hvað það er sem ræður för í því að við stöndum vörð um eldri hús og rífum ekki allt og byggjum nýtt, hvort ráðherrann sjái í hendi sér að til væri einhvers konar gátlisti sem fólk þyrfti að leggja fram og sýna fram á til að það gæti hugsanlegan notið þess að fá vaxtabætur vegna slíkra framkvæmda þó svo að lán sé ekki eingöngu frá Íbúðalánasjóði. En að minnsta kosti verði það íhugað að fólk þurfi ekki að fá lán fyrir viðgerðinni og koma síðan til Íbúðalánasjóðs til að sækja um lán. Þetta eru kannski hugleiðingar en í það minnsta er þetta eitt af því sem fólkið í landinu veltir fyrir sér þegar það horfir í krónur og aura í því ástandi sem við nú erum. En ég þakka ráðherra svörin.