138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að það hafi ekkert með samskipti ríkisins og sveitarfélaganna að gera hvað sveitarfélögin eru mörg. Það er Samband íslenskra sveitarfélaga sem kemur yfirleitt að samningaviðræðum við ríkisvaldið þannig að það er kannski ekki fjöldi sveitarfélaga sem ræður þeim samskiptum. Ég er greinilega ekki jafnmikill sameiningarsinni og hv. þingmaður en hvað um það, við ætlum ekki að deila um það á þessum tímum, við gerum það hugsanlega seinna. En ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að sveitarfélögin og íbúarnir eigi að ráða því sjálfir hvort við eigum að sameinast. Það eru ákveðin samlegðaráhrif sem fylgja því, ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni, að stækka sveitarfélög en það verður alltaf að gerast á forsendum íbúanna.

Ég hef sem sveitarstjórnarmaður komið mjög margar ferðir til Reykjavíkur, sennilega skipta þær tugum ef ekki hundruðum, til að fá eðlilega leiðréttingu á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það er því gríðarlega mikilvægt að kostnaðarreikna frumvörpin svo að ekki þurfi að vera að deila um hvaða kostnað það hefur í för með sér. Því miður erum við föst í því, og það hræðir sveitarfélögin frá því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, að menn setjast niður og ætla að færa eitthvert ákveðið verkefni yfir og fara síðan að reikna það út. Sveitarfélögin eru alltaf svo hrædd við að ekki fylgi nógu miklir tekjustofnar. Í staðinn fyrir að gera þetta með mun einfaldari hætti. Menn segja: Við reiknum með að þetta verkefni kosti þetta mikið. Eftir tvö ár munum við setjast yfir það hver kostnaður sveitarfélaganna var af því að yfirtaka verkefnið. Þá er það bara leiðrétt — hvort sem hann er of mikill eða of lítill þá er það bara leiðrétt, í hvora áttina sem er. Ef við kæmumst upp úr hjólförunum og ynnum þetta með þessum hætti er ég sannfærður um að mörg sveitarfélög væru tilbúnari til að taka að sér enn frekari verkefni. Það þarf ekki nema bara breyta þessu eina atriði, að vera ekki að pexa um kostnað í mörg ár heldur meta hann þegar verkinu er lokið. Hægt er að fá til þess óháða aðila þannig að ekki verði um það deilur. Þetta er að mínu viti grundvallaratriðið til að bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga.