138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

vinna við aðildarumsókn að ESB.

[10:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í sumar þegar við ræddum aðildarumsókn að Evrópusambandinu greiddi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra atkvæði gegn því. Hann sagðist hins vegar mundu vinna ötullega að þessari umsókn fyrir sitt leyti og síns ráðuneytis.

Mig langar í fyrsta lagi til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þeirri ötullegu vinnu miðar í hans ráðuneyti að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og í öðru lagi hvort hann sjái einhver tengsl á milli Icesave-samningsins og aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, t.d. að bæði Bretar og Hollendingar þurfa að samþykkja aðild Íslands að Evrópusambandinu, og hvort það hafi einhver áhrif á afstöðu hans til Icesave-málsins. Hann hefur aldrei talað um Icesave þannig að ég veit ekkert hvað hæstv. ráðherra hugsar í því sambandi eða hvort hann sjái líka fyrir sér að ef allt á Íslandi færi í kaldakol, sem eru ákveðnar líkur á og vonandi kemur fljótlega í ljós, hvort hæstv. ráðherra sjái þá Evrópusambandið sem eins konar björgunarhring til að bjarga Íslandi í þeirri stöðu. (Gripið fram í.)