138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

228. mál
[12:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárveitingu til kjarnastykkis eftirlits með bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi. Margir telja að FME hafi ekki staðið sig nægilega vel fyrir hrun og hafi verið vanbúið að mannafla og fjármagni og ég hugsa að það megi til sanns vegar færa. Ég talaði oft um það hér áður fyrr, fyrir mörgum árum, þegar sambærilegt frumvarp var rætt, að gefa þyrfti verulega mikið í varðandi mannafla Fjármálaeftirlitsins en ekki var fallist á það. Það er nefnilega þannig að það eru fjármálafyrirtækin sjálf sem greiða þetta og það er Fjármálaeftirlitið sem semur við þau um greiðsluna þannig að ég held að menn ættu virkilega að fara að skoða það að breyta fjármögnun Fjármálaeftirlitsins eða alla vega að vera mjög varir um sig svo að ekki komi upp sú staða eins og var að Fjármálaeftirlitið hefði ekki nægan mannskap til að fylgja eftirliti sínu eftir.

Ég er mjög sáttur við þær breytingar sem menn eru að tala um að gera, að gera greinarmun á milli þess sem er liðið, þ.e. hrunsins, og þess sem mun verða. Það er ljóst að nýtt bankakerfi og nýtt fjármálakerfi verður miklu veikara og miklu minna í umsvifum en það gamla, erlend samskipti mjög lítil og þar af leiðandi þarf allur kostnaður að vera mjög hófstilltur gagnvart þeim. Hins vegar er mjög mikið ógert og óunnið í uppgjöri vegna hrunsins og þar þurfa menn enn að hafa mjög myndarlega fjármuni.

Ég vil að menn skoði virkilega til framtíðar hvort þetta fjármögnunarkerfi sé hið albesta og séu virkilega á tánum hvort fjármögnunin sé nægileg fyrir þá starfsemi. Það hefur komið í ljós, t.d. með Icesave, hversu óskaplega mikilvægt þetta fjármálaeftirlit var og það hefði kannski átt að bremsa, ef það hefði verið mögulegt, nú veit ég það ekki — ég tel nefnilega að ábyrgð Breta og Hollendinga sé ekki minni þó að hún hafi ekki komið upp á yfirborðið. Reikningarnir í Hollandi blómstruðu t.d. á einungis þrem mánuðum, Icesave-reikningarnir í Hollandi, og það voru eiginlega engin tök á því fyrir íslenska fjármálaeftirlitið að stöðva þá. Hins vegar hefði hollenska fjármálaeftirlitið getað stöðvað þá með neytendasjónarmið í huga. Ég held því að þessi árátta eða vantrú eða hvað á að kalla það, að gefa sér það að Íslendingar eigi sök á þessu öllu saman, sé mjög hættulegt sjónarmið, sérstaklega þegar menn fara að semja. Menn mega ekki vera vissir um að þeir eigi sök á því sem þeir eru að semja um. Ég held að ábyrgð Breta og Hollendinga sé ekkert síðri en Íslendinga í þessu dæmi og það má vel vera að það verði einhvern tíma leitt í ljós fyrir dómstólum að við eigum ekki að borga Icesave.