138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[11:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða lyfjalögin og breytingar á þeim. Eins og fram hefur komið hefur þessi breyting það í för með sér að verið er að fresta gildistöku á lyfjalögunum sem miðar að því að afnema afslætti í smásölu. Ástæðan fyrir því að þingheimur hefur verið fylgjandi því að afnema afslætti í smásölu er einfaldlega sú að það er liður í því að einfalda markaðinn, gera hann gegnsærri og lækka verðið fyrir neytendur og hið opinbera sem borgar nú megnið af lyfjakostnaði landsmanna. Þvert á það sem menn halda höfðu afslættir í smásölu, alveg eins og afslættir í heildsölu, ekki þau áhrif að lækka verð. Þvert á móti hækkuðu þeir verð og ég beitti mér sem heilbrigðisráðherra fyrir þessum lögum. Við afnámum afslætti í heildsölunni og það er talið hafa skilað á einu ári, ef ég man rétt, 500 millj. kr. sparnaði því að afslættirnir skiluðu sér ekki til þeirra sem borguðu fyrir þetta, hvort sem það voru sjúklingarnir eða hið opinbera. Því er skynsamlegt að afnema afslættina í smásölunni. Við erum alltaf að vinna innan þessa þrönga Evrópusambandsramma, þeirrar tilskipunar sem við verðum að undirgangast í kringum lyfjamálin. Hún er svolítið sérkennileg að því leytinu til að hún er á skjön við flestar tilskipanir sem snúa að viðskiptum á Evrópska efnahagssvæðinu og miða að því að opna markaðinn þannig að hann sé sami alls staðar á svæðinu, þ.e. ef maður flytur eina vöru til Íslands geti hann þar af leiðandi farið með hana til Þýskalands, Frakklands, Hollands eða hvert sem er á Evrópska efnahagssvæðinu.

Lyfjareglugerðin er öfug, í rauninni er það hert að hvert land er markaður. Viðkomandi aðili sem þarf að flytja inn lyf þarf að fara í gegnum sömu tæknilegu hindranirnar í öllum löndunum. Að nafninu til á þetta að gerast til að auka öryggi sjúklinga en allir sem skoða þetta sjá að þarna hafa aðrir hagsmunir svo sannarlega líka verið áberandi, hagsmunir lyfjaframleiðenda. Þeir hafa t.d. miskunnarlaust skipt upp markaðnum í Evrópu. Þannig borga menn miklu minna fyrir ákveðin lyf á Spáni en á Íslandi sem er auðvitað mjög óeðlilegt. Okkur var því mjög þröngur stakkur sniðinn þegar við þurftum að brjóta okkur út úr þessari evrópsku haftaverslun. Ég átti sem ráðherra að vísu ágætt samstarf við þáverandi framkvæmdastjóra Evrópusambandsins sem voru með þessi mál, en það breytir því ekki að í eðli sínu er þetta mikil haftaverslun og hefur haft mikil og skaðleg áhrif á íslenska hagsmuni. Er þetta enn eitt dæmið um það þegar tilskipanir Evrópusambandsins hafa komið okkur í mikinn vanda. (Gripið fram í: Og Icesave.) Auðvitað er Icesave stærsti reikningurinn en lyfjareikningurinn er býsna stór ef menn taka hann saman. Það hefur aldrei verið gert. Í rauninni vorum við með meiri sveigjanleika og frelsi til að haga okkar lyfjamálum áður en við gengum inn í EES en eftir.

Það er hins vegar skynsamlegt að halda áfram að vinna að þessum málum. Gríðarlegur árangur náðist í því að lækka lyfjaverðið, m.a. út af því að við beittum okkur fyrir því á sínum tíma að afnema afslættina í heild sinni. Á sama hátt reyndum við að opna þessa hluti eins og við gátum með póstverslun. Sömuleiðis fórum við í samstarf við önnur ríki. Að vísu var Svíþjóð eina ríkið sem við náðum samstarfi við á þeim tímapunkti þannig að það er samstarfssamningur á milli landanna sem gerir það að verkum að ef aðilar sækja um markaðsleyfi fyrir lyf í Svíþjóð kemur það sjálfkrafa inn til Íslands nema viðkomandi aðili mótmæli því sérstaklega. Þetta hefur gert það að verkum að nokkrir tugir lyfja hafa komið í gegnum þennan vettvang til Íslands sem er mjög gott vegna þess að vandinn hefur verið sá að tiltölulega fáum lyfjum hefur verið hægt að koma á markað á Íslandi sem hefur leitt af sér fákeppni og ekki mikla samkeppni. Á sama hátt nýttum við undanþáguákvæði með þeim hætti að ég sem heilbrigðisráðherra gaf út reglugerð sem gerði það að verkum að við sérstakar aðstæður — og þær aðstæður eru uppi núna, virðulegi forseti, að segja má á öllum sviðum eftir efnahagshrunið — væri hægt að flytja inn lyf með fylgiseðla með tungumálum Norðurlandanna, utan Finnlands, og ensku en hins vegar þegar það væri selt í íslenskum apótekum væri hægt að prenta út fylgiseðil á íslensku. Þetta hljómar kannski dálítið sérkennilega fyrir þá sem hlusta á og þekkja málin ekki út í hörgul, en ein ástæðan fyrir því að það hefur verið erfitt að fá lyf til landsins er sú að það hefur þurft að hafa séríslenskar pakkningar. Það hefur þurft að setja íslenskar leiðbeiningar inn í hvern pakka. Þetta hefur verið túlkunin og reglan hjá Evrópusambandinu. Það er auðvitað sjálfsagður réttur hvers og eins sjúklings að fá leiðbeiningar á sínu tungumáli en það er mjög sérkennilegt og í rauninni alveg glórulaust að það megi ekki gerast með þeim hætti að apótekið sem selur það geti prentað leiðbeiningarnar út og rétt viðskiptavinum yfir borðið og þá hugsanlega í þeirri leturstærð sem viðkomandi einstaklingur vill hafa. Margt af því fólki sem þarf á lyfjum að halda er sjóndapurt og það mundi auka framboð á lyfjum á landinu. Meðan menn eru með þessa Evróputilskipun eins og hún lítur út núna er túlkunin sú að þetta þurfi allt saman að vera inni í kassanum. Þessir stóru framleiðendur stoppa hins vegar ekki framleiðsluvinnuna fyrir nokkur hundruð pakka með íslenskum leiðbeiningum þannig að þetta er mjög mikil tæknileg viðskiptahindrun. Ég vek athygli á þessu hér vegna þess að ég tel núna allar forsendur til, og þær standast alveg, í það minnsta að láta reyna á að það standist fyrir Evrópudómstólnum, til að hafa þetta eins vítt og mögulegt er, þ.e. að hér verði hægt að flytja inn lyf með fylgiseðla úr öðrum Norðurlandatungumálum, fyrir utan finnsku, og ensku gegn því að smásalar prenti út leiðbeiningar með viðkomandi lyfjapökkum. Það er ekki verri þjónusta, síður en svo, það er betri þjónusta, ekki minna öryggi, alls ekki, en mundi hins vegar hjálpa okkur í baráttunni gegn háu lyfjaverði.

Þá erum við komin að því sem þetta frumvarp felur í sér, frestun um eitt ár á því að afnema afslættina í smásölunni. Þegar hæstv. ráðherra kom með þetta í þingið gerði hann ekki ráð fyrir frestun, heldur ætlaði hann að fella þetta út úr frumvarpinu. Það hefði verið mjög hættulegt. Ástæðan fyrir því að þessu með að afnema afslættina var frestað var sú að það var verið að vinna að nýju endurgreiðslukerfi á lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu. Sú nefnd starfaði undir formennsku hv. þm. Péturs H. Blöndals og virðulegur forseti var varaformaður í þeirri nefnd, og undir forustu þeirra var unnið mjög skipulega að því að breyta endurgreiðslukerfinu. Það er krafa allra aðila og það kom fram í umfjöllun nefndarinnar, allra sjúklingasamtaka, verkalýðshreyfingarinnar, allra aðila sem eru með umbjóðendur á þessu sviði eða telja sig hafa hagsmuna að gæta fyrir hönd þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu og lyfjum að halda, að þessi vinna verði kláruð. Það kom mjög skýrt fram í nefndinni að það hefur verið mikil ánægja með vinnu nefndarinnar sem hefur verið kennd við hv. þm. Pétur H. Blöndal og ég setti af stað árið 2007. Það er búið að leggja mikla fjármuni í hana. Ég held að kostnaðurinn hafi verið 16 millj. kr. vegna þess að það er svo dýrt að kalla saman þessar upplýsingar. Með hverjum deginum sem líður og menn halda ekki þessari vinnu áfram munu upplýsingar úreldast.

Allir þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, hvort sem er fyrir sjálfa sig eða sína nánustu, vita að það er engin skynsemi, hvað þá réttlæti, í greiðsluþátttöku sjúklinga. Það er alveg undir hælinn lagt hvenær menn greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Stundum er það lítið, stundum er það mikið. Það er mjög flókið að halda utan um alla þessa hluti. Það eru ákveðin prinsipp í gangi að nafninu til um að ef menn fara á spítala þurfi þeir ekki að greiða. Það er ekki rétt. Ég fór á spítala fyrir rúmlega ári, fór fyrst í rannsókn og svo í aðgerð og svaf yfir nótt og ég greiddi umtalsverða fjárhæð fyrir það. Ég þoldi það svo sem, það var ekki vandamálið, en það eru engar reglur í þessu. Fólk sem þurfti á þjónustunni að halda, langveikt fólk sem átti við mjög erfiða sjúkdóma að etja og búið að vinna í því í mörg ár, talaði við mig og kvartaði mikið undan því að það væri ekkert samræmi í þessum málum, t.d. þegar menn eiga við banvæna sjúkdóma að etja eiga þeir í orði kveðnu ekki að greiða neitt fyrir lyf sem tengjast sjúkdómnum en samt sem áður þarf fólk á alls konar öðrum lyfjum að halda í tengslum við eða í framhaldi af þeirri sjúkdómabaráttu sem fólk á í. Það þarf oft að greiða fyrir það mikla fjármuni.

Grunnhugmyndin varðandi breytt endurgreiðslukerfi var einfaldlega sú að hafa eitthvert hámark á kostnaði við þá sem eru langveikir og þurfa mikið á þjónustunni að halda. Allar kannanir sýna það. Það væri skynsamlegt ef hv. þm. Pétur H. Blöndal mundi aðeins upplýsa þingheim um það vegna þess að þetta er svo mikilvægt mál og við þurfum að hvetja stjórnvöld til dáða í þessu. Ég man ekki nákvæmlega prósenturnar en lunginn af kostnaðinum í heilbrigðisþjónustunni er greiddur af þeim sem eru langveikir og þurfa á mikilli þjónustu að halda. Hugmyndin var sú að hafa hámark á því og hin hliðin á þeim peningi er sú að við sem erum lánsöm og þurfum tiltölulega lítið á heilbrigðisþjónustunni að halda borgum þá eitthvað meira en hlífum þeim sem þurfa mest á þjónustunni að halda.

Ástæðan fyrir því að ég ræði þetta hér sérstaklega, virðulegi forseti, er að það tengist þessu máli auðvitað alveg beint en líka til að ítreka úr ræðustóli Alþingis — og ég mun ekki þreytast á að gera það fyrr en verkefninu er lokið — og hvetja hæstv. ríkisstjórn til að klára þetta verkefni. Gríðarleg vinna liggur að baki, hún var öll slegin af þegar vinstri stjórnin tók við, þá var hætt við þetta allt saman, og það er ekki bara krafa Sjálfstæðisflokksins, virðulegi forseti, það er sömuleiðis krafa allra þeirra sem hafa hagsmuna að gæta, þeirra sem gæta hagsmuna sjúklinga. Allir eru sammála um það. Ég hef ekki heyrt nein sjúklingasamtök eða neinn fulltrúa heilbrigðisstarfsmanna, engan lýsa öðru yfir en mjög sterkum vilja til að einfalda þetta kerfi og gera það réttlátara. Nú má vel vera að erfitt sé fyrir núverandi ríkisstjórn, sem að vísu hafði mig grunaðan þegar ég var í þeirri ríkisstjórn sem að þessu máli stóð, að ganga í og klára þau verk sem voru hafin í tíð Sjálfstæðisflokksins en þetta mál er svo miklu stærra en svo að menn geti látið slíkt trufla sig. Það er auðvitað algjör synd að í máli eins og þessu sem ætti að vera pólitískt breið samstaða um — og ég ætla að svo sé — að menn nýti ekki það sem búið er að gera og gangi ekki í að klára þetta verkefni.

Ég vitna til þess, virðulegi forseti, að í það minnsta 16 millj. kr. fóru í þessa vinnu sem voru til staðar áður. Það er krafa allra að þessari vinnu verði lokið og ég brýni stjórnarliða enn og aftur og forsendan fyrir því að við samþykkjum þetta frumvarp er að við treystum því að (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn gangi í þetta mál og klári það.