138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[11:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um ansi mikilvæg mál. Ég vil halda því til haga sem kom fram hjá mér við atkvæðagreiðslu um sama mál í gær að í meðferð þeirra mála sem við greiðum atkvæði um frá félagsmálaráðherra hafa komið fram mjög alvarlegar athugasemdir frá þeim hagsmunaaðilum sem um ræðir, t.d. Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalaginu, Landssambandi eldri borgara, Sjálfsbjörg og fleiri aðilum. Það er samdóma álit þessara aðila að hæstv. ríkisstjórn hafi í samskiptum sínum við þá við undirbúning og vinnslu umræddra mála brotið blað í samskiptum ríkisvaldsins og þessara stofnana eða samtaka. Sú stjórn sem ætlaði að vera með opið lýðræði hefur brotið blað í umfjöllun og undirbúningi þessara mála. Við segjum því nei, sjálfstæðismenn, við þessa atkvæðagreiðslu.