138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að skýringin á því af hverju þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru fjarverandi við umræðuna sé vegna þess að þetta er mál sem kemur mjög illa við hugmyndafræði þess ágæta flokks. En það hefur reyndar svo margt gerst á Alþingi Íslendinga sem hefur verið í mótsögn við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þetta mál er í raun algerir smámunir miðað við mörg önnur stór mál sem Vinstri grænir hafa staðið að sem gengur algerlega gegn stefnu og hugsjónum þess flokks. Kannski endurspeglast staða mála ágætlega í því þegar hv. þm. Þór Saari sagði áðan að það væri spurning hvort þyrfti að skíra þennan stjórnmálaflokk sem héti Vinstri hreyfingin – grænt framboð upp á nýtt yfir í Vinstri hreyfingin – óljóst framboð því það er orðið mjög óljóst fyrir hvað þessi stjórnmálaflokkur stendur.

Mig langar til að nefna — (PHB: Evrópusambandið.) Hv. þingmaður nefnir Evrópusambandið, ég held að hann hafi ekki nefnt Evrópusambandið á nafn áður í þingsal. — En mig langar til að nefna að nái þetta frumvarp fram að ganga mun ferðaþjónustan verða fyrir miklum skakkaföllum. Vinstri grænir hafa talað um uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Til dæmis í stórri atvinnugrein, hópbifreiðarekstri, er verið að ræða um 600 millj. kr. hækkun á ársgrundvelli gagnvart rekstri hópbifreiða í landinu með þeirri breytingu sem hér er lögð til og fleiri skattahækkunum sem ríkisstjórnin hefur lagt til. Það er mjög alvarlegt mál og það rímar ekki alveg við þá stórsókn sem Vinstri grænir vildu hefja í ferðaþjónustu hér á landi því að með frumvarpi þessu er með ákveðnum hætti vegið að grundvelli ferðaþjónustunnar sem hefur þó verið bjarta vonin á erfiðum tímum í atvinnulífi Íslendinga.