138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég stjórna því ekki hvernig myndirnar á forsíðu Morgunblaðsins eru á litinn, þannig að það liggi algjörlega hreint og klárt fyrir.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um að það séu umhverfisrök í þessu. Hver eru þá rökin í því að dísilolía hækki meira en bensín? Menga ekki dísilbílar minna en bensínbílar t.d.? Það er ein spurning.

Við ræddum í gær eða fyrradag frumvörp hæstv. iðnaðarráðherra sem áttu að vera ívilnandi til atvinnusköpunar, efla ferðaþjónustu, efla iðnað, efla nýsköpun, og svo kemur hæstv. fjármálaráðherra hér undir fölsku yfirskini umhverfisskatta sem búið er að búið að færa fín rök fyrir að er alls ekki að finna í þessu frumvarpi sem gengur þvert gegn öllum hugmyndum og öllum þeim hagsmunum sem ég heyrði hæstv. iðnaðarráðherra tala fyrir.

Það er engin heildarhugsun í þessu frumvarpi, þetta er vont frumvarp. Það sem önnur höndin gefur (Forseti hringir.) tekur hin með tvöföldu afli.