138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér líst illa á að gera ekki ráð fyrir í fjárlögum óumflýjanlegum útgjöldum til að fá varðskipið heim, a.m.k. fyrr en menn hefðu eitthvað í hendi. Ég ætla ekki sem fjármálaráðherra að endurtaka þann leik sem hér var leikinn í fyrra þegar menn slepptu því að fjármagna kaupin á landhelgisgæsluflugvélinni út á það að það ætti að leigja hana eða fá hana í kaupleigu eða láta einhvern annan gera það, sem reyndist síðan að sjálfsögðu ekki hægt vegna þess að þetta eru mjög sérhæfð tæki og kaupendur eða leigjendur að þeim liggja ekki á lausu. Menn yrðu auðvitað að hafa eitthvað í hendi með það.

Varðandi varðskipið væri það auðvitað mjög blóðugt og dapurlegt ef við hefðum ekki efni á að eignast stórt og öflugt varðskip sem svarar kalli tímans og auðvitað reka það. Því er ætlað margþætt hlutverk, ekki bara hefðbundið gæsluhlutverk, þetta á að verða nógu stórt og öflugt skipt til þess að geta glímt við aðstæður þegar stór skip lenda í vandræðum. Við erum að fá hingað (Forseti hringir.) aukinn fjölda skemmtiferðaskipa, olíuskip og fleiri stór skip eru hér á okkar svæði og því þurfum við auðvitað að eiga nægjanlega stórt og öflugt skip til að geta ráðið við slík verkefni.