138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að það eru ekki fyrst og fremst við sjálfstæðismenn sem höfum verið að tala um að þetta séu ekki eiginlegir umhverfisskattar heldur umsagnaraðilar í hópum sem hafa gagnrýnt málið einmitt á þeirri forsendu. Maður hlýtur að gefa sér það að málið væri ekki einungis hugsað til skamms tíma eða í takmarkaðan tíma ef að baki því liggi einhver umhverfispólitík, einhver ný stefnumótun, stefnumörkun í því hvernig við ætlum að taka arð af auðlindum landsins og hindra óþarfamengun inn í framtíðina. Ja, hvernig stendur á því að ríkisstjórnin leggur málið fram og ætlar því einungis að hafa gildistíma í þrjú ár? Eitthvað er bogið við þetta. Allt ber þetta þess merki að verið er að reyna að stoppa upp í fjárlagagatið.

Það er spurt hvort við sjálfstæðismenn séum á móti auðlindagjöldum. Nei, við komum með auðlindagjald á sínum tíma í breiðri pólitískri sátt á sjávarútveginn. Það er mjög mikil einföldun að tala um að auðlindir landsins, þá sem sækja sjó eða nýta orkuna í landinu til atvinnustarfsemi séu ekki með nokkrum hætti að greiða til samfélagsins og í ríkissjóð. Auðvitað eru þeir að gera það í stórum stíl.

Við skulum skoða það t.d. hvernig eigið féð hefur byggst upp í Landsvirkjun í gegnum tímann. Hverjir eru það sem greiða fyrir megnið af orkunni sem Landsvirkjun er að framleiða? Hvað með störfin og afleiddu tekjurnar sem verða til í sjávarútveginum? Allt eru þetta fyrirtæki sem skila miklu til ríkisins. Ég tel að við eigum að ýta undir kraft og fjölbreytni í atvinnulífinu sem muni skila ríkinu tekjum. Við eigum ekki að koma með tilfallandi vanhugsaða skatta (Forseti hringir.) sem ekki hefur verið haft samráð við nokkurn mann um.