138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:46]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum náttúrlega rifjað upp heimboð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands þegar Sjálfstæðisflokkurinn bauð hann velkominn hingað, ég held að það hafi verið gert skriflega, en ég get alveg trúað hv. þingmanni fyrir því að ég fæ ekkert sérstaklega í hnén þegar fulltrúar þess sjóðs tala. En þetta er alveg rétt, þetta er staðreynd sem við öll þekkjum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur okkur stranga kosti, það er staðreynd sem við eru tilneydd til að hlíta svo lengi sem við höfum hann innan borðs. Þetta er staðreynd sem við öll þekkjum og fráleitt annað en horfast í augu við þá staðreynd. Það er alveg rétt að þeir hópar sem hv. þingmaður nefndi koma til með að þurfa að axla auknar byrðar. Það er alveg rétt, þetta er þannig. Við horfum öll fram á kjaraskerðingu á Íslandi, það er bara staðreynd, og við erum að reyna að taka á henni á félagslega (Forseti hringir.) réttmætan máta og ég tel að okkur sé að takast það bærilega. (Forseti hringir.) Við skulum heldur ekki gleyma því, hæstv. forseti, að jákvæð teikn eru á lofti, landið mun rísa, að sjálfsögðu.