138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:01]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson beindi mörgum fyrirspurnum til mín ásamt því að lýsa því hvar í salnum ég væri stödd og ekki stödd. Ég ætla að reyna á þeim stutta tíma sem ég hef fengið úthlutað að svara þessum fyrirspurnum og vil byrja á að nefna að efnahags- og skattanefnd var mjög vel meðvituð um áhrif þessara skattahækkana á skuldir heimilanna. Það er m.a. ástæða þess að falla á frá 14% virðisaukaskattsþrepinu. Við erum með öðrum orðum að draga úr skattheimtu um alla vega 3 milljarða miðað við upphaflega áætlun. Auk þess vil ég nefna að ríkisstjórnin hefur farið í hliðarráðstafanir til að auðvelda heimilum að standa undir greiðslubyrði lána og nægir í því sambandi að nefna greiðsluaðlögun og greiðslujöfnun. Ég skal þó viðurkenna að þessar aðgerðir eru ekki langtímaaðgerðir.