138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður og sáttur við þær breytingar sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar gerir á virðisaukaskattsmálunum. Það sem slegið verður á frest verður tekið til nánari skoðunar. Varðandi ræðuhöld um að virðisaukaskattur á Íslandi sé sá hæsti í heimi þá er það reyndar ekki svo vegna þess að þegar bæði þrepin eru skoðuð og meðaltal virðisaukaskattsálagningar á Íslandi vegið — (Gripið fram í.) þegar skoðuð er álagning virðisaukaskatts er lægra þrepið eitt það lægsta sem þekkist. Vissulega er bilið þarna á milli langt en stór hluti mikilvægustu neysluvara almennings er skattlagður vægar en þekkist víðast hvar annars staðar. Útkoman úr þessum breytingum er að því er haldið og ekki er hróflað við virðisaukaskatti á matvæli og fleiri mikilvægar vörur. Heildarútkoman er því hagstæð að ég tel, eftir því sem aðstæður frekast leyfa, og vonandi fagna hv. þingmenn því, þ.e. ef þeir sjá ljósið og ræða samhengi hlutanna (Forseti hringir.) eins og það sannanlega er.