138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef hvergi legið á því að það er auðvitað þannig að þau áform sem uppi voru og lögfest að ég hygg af þeirri ríkisstjórn sem ég sat í, í samstarfi við flokk hv. þingmanns, voru um það að ekki ætti að bæta persónuafsláttinn eftir vísitölu heldur ætti að ganga lengra og bæta eiginlega fyrir syndir framsóknar- og sjálfstæðisáratugarins þar á undan og hækka hann enn meira. Ef þær hækkanir hefðu komið til framkvæmda nú um áramótin, hefði fólk með laun undir 270.000 kr. borgað nokkuð lægri skatta.

En ég sagði fyrst og fremst og lagði áherslu á það hér áðan að við værum að hlífa því fólki við hækkunum vegna þess að aðstæður okkar eru einfaldlega þannig að við höfum ekki ráð á umfangsmiklum skattalækkunum á þessu stigi og ég held að það sé bara raunsætt mat og hygg að hv. þingmaður geti verið mér sammála. Hann hefur sannarlega efnisrök þegar hann vísar til ólíkrar meðferðar á sjómannaafslættinum svokallaða annars vegar og hins vegar á fæðingarorlofinu, en ég held þó að menn verði líka að vega og meta að annars vegar er um að ræða tiltölulega nýfengin réttindi, einmitt þegar við kannski töldum okkur hafa efni á meiru en raunin varð og umtalsvert meiri réttindi en tíðkast í löndunum í kringum okkur. Á meðan sjómannaafslátturinn á sér yfir hálfrar aldar hefð og er skattafyrirkomulag sem þekkist í öllum nágrannalöndum okkar og því er eðlilegt, vegna þess að afslátturinn tengist kjörum þeirrar stéttar, að gefa mönnum færi á að taka þessi mál upp við samningaborðið, milli atvinnurekenda og starfsmanna í þeirri grein.