138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:19]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni kærlega fyrir framsögu hans sem og ljúfar stundir á nefndardögum í efnahags- og skattanefnd þar sem ég hafði þann heiður að koma inn sem varamaður. (Gripið fram í.) Um leið og ég hlakka til frekari umræðna í kvöld um hið stórpólitíska mál sem skattamálin eru vil ég spyrja hv. þingmann í ljósi þess að með þessu frumvarpi er stuðlað að auknum jöfnuði í skattkerfinu á Íslandi hvort hann sé hlynntur því eða mótfallinn að gera það. Svo spyr ég líka í ljósi forsögu hans flokks í skattamálum hvort hann sé stoltur af þeirri arfleifð sem m.a. felur það í sér að sirka á árunum 1993–2007 lækkuðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn stórlega skattbyrði hátekjuhópanna. Það var t.d. settur á 10% skattur á fjármagnstekjur á móti 37% skatti sem fólk borgar af atvinnutekjum yfir skattleysismörkum. Á sama tíma voru skattleysismörkin rýrð, þ.e. persónufrádrátturinn, sem jók auðvitað umtalsvert skattbyrði lágtekjuhópanna og meðaltekjuhópanna. Með þessu var sem sagt aukið á ójöfnuð með skattstefnunni og að auki rýrðu stjórnvöld umtalsvert bæði barnabætur og vaxtabætur til ungra fjölskyldna frá 1995–2006. Þar að auki var niðurfelldur hátekjuskattur á árabilinu 2003–2007 sem magnaði þessa þróun enn þá frekar og þannig var beinum ívilnunum úthlutað til hátekjufólks um leið og skattbyrði lágtekjufólks, lífeyrisþega, ungra barnafjölskyldna, einstæðra mæðra, fólks í lágt launuðum störfum á vinnumarkaði var aukin. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður stoltur af þessum afrekum?