138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla bara að halda mig við það sem ég var að ræða áðan. Auðvitað er aldrei ásættanlegt að börn séu fátæk, en hins vegar var alveg ljóst miðað við þessar samanburðarkannanir sem voru gerðar samkvæmt stöðlum OECD að hætta á að fjölskyldur lentu í fátækt hér á landi var með því minnsta sem gerðist innan OECD. Gögn frá Hagstofunni frá vorinu 2007 sýna þetta ótvírætt. Sama á við um jöfnuð, því að þó að jöfnuður hafi vissulega minnkað á þessu tímabili, sérstaklega þegar um var að ræða stórfellda aukningu fjármagnstekna um tíma, var jöfnuður hér á landi meiri en gekk og gerðist og þessar samanburðarkannanir sýna það. Það sem hins vegar raskar þessari mynd er nákvæmlega það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson benti á áðan að hér ruku fjármagnstekjur upp á tiltölulega stuttu árabili. Þær eru horfnar, þannig að þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur af (Forseti hringir.) mismuninum sem af þeim stafaði er horfinn og er það (Forseti hringir.) gott eða slæmt? Ég veit það ekki.