138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:47]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst við erum komin út í heimspekilegar pælingar um jöfnuð og ójöfnuð, vil ég kannski beina þeirri spurningu til baka til hv. þm. Birgis Ármannssonar hvort hann hafi verið hrifinn af þeirri ójöfnuðarþróun sem vissulega átti sér stað og hefur verið mæld á Íslandi, vegna þess að mér fannst það kannski ekki koma alveg skýrt fram hjá honum. (Gripið fram í.) Mér hefur verið bent á að hann komist ekki upp í andsvar aftur. (Gripið fram í: Ekki fyrr en í ræðunum.) Já, þetta gerist endurtekið hjá þeim þingmanni sem hér stendur og er beðist innvirðulega afsökunar á því. Ég vil bara fá að ítreka það sem ég benti hv. þingmanni á að til þess að viðhalda lífskjörum hér í framtíðinni og hærri tekjum fyrir alla, sem er eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn sækist alltaf eftir og hefur að viðmiði, tel ég að við þurfum að ganga í Evrópusambandið og fá að taka upp gjaldmiðil þess sambands og eiga þar viðskipti.