138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara þessum spurningum vegna þess að ég ætla að nota andmælarétt minn til að andmæla ræðu hennar. Hún á ekki að eyða ræðutíma þingmanna með því að spyrja þá alltaf spurninga.

Ég ætla ekki að deila lengur um það að ef sú breyting sem á að verða hérna, eða átti að verða samkvæmt íslenskum lögum, er byggð á fölskum grunni hefur hv. þingmaður misskilið hlutina allhrapallega. Þetta byggir á íslenskum lögum, ekki fölskum grunni.

Hv. þingmaður segir að jaðarskattur hækki um 3%. Ég er hagfræðingur og alveg þokkalega að mér í hagfræði en eins og ég skil þetta, og ég held að það sé rétt hjá mér, hækkar jaðarskattur allra mismunandi mikið og það er m.a.s. þannig að jaðarskatturinn hækkar við (Forseti hringir.) hverja einustu krónu. Hvernig fær hv. þingmaður það út að jaðarskattur hækki um 3%? (Forseti hringir.)