138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegu ræðu. Ég hef ekki alltaf verið sammála þingmanninum en hann nálgast þó viðfangsefnið með málefnalegum hætti og það ber að lofa.

Mig langar að falast eftir áliti hv. þingmanns á þeirri breytingu sem gerð er með þessu frumvarpi og snertir auðlegðarskatt að því leyti að hér er lagt til að einstaklingar sem eiga yfir 90 milljónir nettó og hjón yfir 120 milljónir greiði 1,25% af hverri milljón umfram það eða um 12.500 kr. af þeirri milljón í skatt til samfélagsins á þessum erfiðu tímum í rekstri þjóðarbúsins. Hvert er álit hans á þessari nálgun? Telur hann að hér sé of langt seilst í buddu þessara einstaklinga eða ekki?

Með sama hætti langar mig að spyrja Birgi Ármannsson, hv. 11. þm. Reykv. s., um skoðun hans á sjómannaafslættinum. Telur hann rétt að afnema sjómannafslátt og þá með þeim hætti sem hér er lagt til?