138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:12]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að reyna að greina af svari þingmannsins hver afstaða hans væri, því að rétt eins og ég er í raun og veru sammála honum um að eignarskattur sé í sjálfu sér ekki fýsilegur og í raun erum við að sjálfsögðu að auka hér skattbyrði á landsmenn og það er ekki ákjósanlegt en við stöndum frammi fyrir mjög válegri stöðu í okkar þjóðarbúskap. Eins og kemur fram í frumvarpinu er auðlegðarskattur eins og hann er lagður til hér tímabundin aðgerð til þriggja ára þess eðlis að þeir sem breiðustu bökin hafa í þjóðfélagi okkar leggi meira til samfélagsins, 12.500 kr. af hverri milljón sem einstaklingar eiga umfram 90 milljónir nettó.

Að sjálfsögðu birtist í þessari nálgun og í afstöðu okkar til sjómannaafsláttar að við verðum að horfa ofan í hverja matarholu. Því spyr ég og endurtek spurningu mína: Telur hv. þingmaður að auðlegðarskattur með þeim hætti sem hann er kynntur hér og við þá stöðu sem við búum við í dag sé réttlætanlegur?