138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[10:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Með þessu er verið að auka álögur á atvinnulíf sem berst í bökkum, má segja. Annað í þessu er að álögur á sveitarfélögin munu aukast. Ég veit að gefin hafa verið fyrirheit um að sveitarfélögunum verði bættar þær álögur sem á þau munu leggjast með þessari hækkun tryggingagjalds og ég vona að ríkisstjórnin standi við það og bæti þetta að fullu. Það er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélögin að fá þetta til baka, fá þetta leiðrétt, því eins og við vitum öll inna þau af hendi mikilvæga þjónustu sem ríkið sinnir ekki og því er algerlega ótækt ef þau verða látin bera eitthvað af þessari hækkun. Því skora ég á ríkisstjórnina að standa við þau fyrirheit sem ég veit að hafa verið gefin sveitarfélögunum og bæta að fullu það tryggingagjald sem leggst á þau.