138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ágætt í sjálfu sér að hæstv. utanríkisráðherra hafi viðurkennt að það samkomulag sem var gert við stjórnarandstöðuna við lok 2. umr. á Icesave hafi verið svikið. Mig langar líka að benda á það að frú forseti sagði áðan þegar hún kynnti dagskrána að það væri í samræmi við samkomulag sem gert hefði verið að til stæði að vera með kvöldfund. Hæstv. utanríkisráðherra leiðrétti þann misskilning og sagði að ekkert samkomulag hefði náðst um dagskrá þingsins þannig að það liggur fyrir að ekki hefur náðst að semja um þetta og mér er óskiljanlegt af hverju frú forseti viðurkennir ekki að henni hefði orðið á í messunni og boðar þingflokksformenn á fund á næstu mínútum.