138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:06]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið orð mín. Ég sagði ekki að það yrði látið reyna á neyðarlögin ef gengið yrði frá þessum samningum en það sem ég sagði var að líkurnar á að þau féllu fyrir dómi mundu aukast mjög.

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður spyr út í, og er mjög góð ábending, lýtur að því hvort æskilegt hefði verið að gera þessa samninga frekar á vettvangi Evrópusambandsins og hafa fulltrúa Evrópusambandsins með í samningagerðinni. Ég get út af fyrir sig alveg verið sammála því. Ég held að það hefði áreiðanlega verið skynsamlegt að fara þá leið. Hitt er hins vegar ekki rétt sem mér fannst koma fram í málflutningi hv. þingmanns að Brussel-viðmiðanna hefði ekki verið gætt í samningsgerðinni. Þar nægir að benda á bréf hæstv. fjármálaráðherra og formanns samninganefndarinnar til hollenskra viðsemjenda, sem ég var bara að renna yfir þannig að þau eru mér fersk í minni, frá því í byrjun apríl þar sem beinlínis var vísað til Brussel-viðmiðananna til þess að komast undan eilífum klifunum Hollendinga á þeim samningskjörum (Forseti hringir.) sem fólust í hinu upphaflega minnisblaði frá því í október.