138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hlýddum hér á efnislega sömu ræðu hjá hæstv. félagsmálaráðherra og hann flutti fyrr í sumar, eins og ekkert hafi gerst í millitíðinni. Hann flutti okkur þau tíðindi að Memorandum of understanding sem gert var í fyrra hefði verið gildur þjóðréttarsamningur og væri ein af aðalástæðum þess að við ættum nú að ganga frá Icesave-skuldbindingunum. Ekkert af þessu hefur staðist þá skoðun sem farið hefur fram hér í þinginu.

Eitt sem var rétt hjá hv. þingmanni, það var um ábyrgð Landsbankamanna. Þetta var nefnilega banki rekinn af einkaaðila. Þetta voru einkaréttarlegar skuldbindingar sem bankinn stofnaði til og kröfur á hann voru einkaréttarlegs eðlis. Á þeim tímapunkti var ekki um neina þjóðréttardeilu að ræða.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði að við hefðum getað gert eitthvað í málunum. Við hefðum getað sett strangari skilyrði fyrir því t.d. að menn söfnuðu innlánum í útlöndum. Hver átti að setja þessi ströngu skilyrði? Var hæstv. félagsmálaráðherra að senda sínum kollega hér úr Samfylkingunni sneið, þ.e. fyrrverandi ráðherra (Forseti hringir.) sem sagði af sér í kjölfar hrunsins, eða hver var það (Forseti hringir.) sem átti að gera þetta? Var það ekki örugglega á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins og þess ráðherra (Forseti hringir.) sem fór með þann málaflokk en ekki Seðlabankans, sem hæstv. ráðherra vísaði til í ræðu sinni?