138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af síðasta andsvari og svari vildi ég bara velta því upp hvort það geti ekki verið að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi samþykkt það í júní að samþykkja ríkisábyrgð á samningana sem þá lágu fyrir og verið býsna ánægðir með þá samninga, hvort þingflokkur Samfylkingarinnar hafi ekki verið býsna ánægður með stöðuna eins og hún var í lok ágúst og talið það mjög góða lausn, hvort þingflokkur Samfylkingarinnar hafi ekki bara verið á því nú í haust að það væri líka góð lausn.

Er það ekki rétt hjá mér líka að í öllum tilvikum hafi þeim málflutningi verið haldið á lofti að hér mundi allt hrynja ef samningarnir, eins og þeir lágu þá fyrir, yrðu ekki samþykktir? Er ekki rétt hjá mér að því hafi verið haldið fram af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar, og þar á meðal talsmanna Samfylkingarinnar, allt frá upphafi þessa máls að lengra verði ekki komist? Þó hefur málið tekið verulegum breytingum, að ég tel, frá því að það var fyrst lagt fram í sumar.