138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir ræðuna. Eins og gefur að skilja geti ég ekki tekið undir margt sem kom fram í hans ræðu og ég verð að viðurkenna að ég skildi hana ekki alveg alla, né heldur nákvæmlega um hvað hún fjallaði. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði til að mynda ekki mikið um þann viðskiptajöfnuð sem við þyrftum að skila til að geta staðið við samninginn. Hann talaði lítið um þau álit sem hafa fallið hér á síðustu dögum og vikum frá lögfræðistofum og slíkt en hann talaði meira um vinnulagið og hvernig þetta hefði átt að vera og hvernig skynsamlegra hefði verið að standa að þessu en raun ber vitni. Mig langar því að spyrja þingmanninn hvort hann telji það ásættanlegt að keyra þetta mál í gegnum þingið á minnsta mögulega meiri hluta og það þegar talið er að um 70% þjóðarinnar séu á móti samningnum eða ríkisábyrgðinni. Telur hann að það sé nægilega rætt og nægilega kynnt fólkinu í landinu hvað Samfylkingin og Vinstri grænir eru að gera?

Mig langar jafnframt að spyrja hann hvort hann kannist ekki við þetta plagg sem nokkrum sinnum hefur verið veifað hér í ræðustól. Það er úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar má sjá svokallaða viðskiptadrauma, hvernig við eigum að skila nægilegum hagnaði í gjaldeyri á næstu árum til að geta staðið við skuldbindingarnar. Viðskiptahallinn þarf að vera jákvæður um 160 milljarða á ári næstu tíu árin, tekjur ríkisins þurfi að aukast um 50 milljarða á ári næstu árin. Er það sjálfgefið að landsframleiðsla aukist næstu árin miðað við hvernig við stöndum að stuðningi við atvinnufyrirtækin í landinu? Og hversu hátt getur skuldaþol Íslands af vergri landsframleiðslu orðið? Mig langar að heyra álit þingmannsins á þessum þáttum af því að þeir (Forseti hringir.) skipta gríðarlegu máli um hvort við getum staðið við þennan samning.