138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér fer fram 3. og síðasta umræða um svokallað Icesave-mál, ríkisábyrgð á lánum vegna Icesave-skuldbindinganna. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þetta sé erfiðasta mál sem Alþingi hefur tekist á við um langt skeið, a.m.k. lengur en við sem sitjum á þingi í dag munum eftir og jafnvel þeir sem hafa lengsta þingreynslu. Margt hefur verið sagt í þessari umræðu. Hún er orðin alllöng, enda málið stórt og mikið að vöxtum og eðlilegt að það fái ítarlega umfjöllun bæði í þingsal og á vettvangi nefnda þingsins eins og það hefur sannarlega fengið.

Nú fer ég strax að hugsa um hvað ég sagði nákvæmlega sem olli því að hv. þingmaður vill komast í andsvar við mig strax. Ég hélt ég hefði vandað mig svo sérstaklega í upphafi ræðu minnar að það væri ekki sérstakt tilefni til þess en það á kannski eftir að koma og kannski er hægt að skapa þingmanninum tækifæri til að bregðast við.

Margt hefur verið sagt í þessari umræðu en það hefur ekki allt verið yfirvegað og margs konar álit hafa komið fram. Þingnefndir hafa aflað þeirra og eins og gefur að skilja taka þau á ólíkum álitamálum og í mörgum tilvikum komast sérfræðingar að ólíkri niðurstöðu um einstök álitamál. Allt er þetta eðlilegt í sjálfu sér í máli af þessum toga. Að mínu viti er ekki hægt að höndla stóra sannleika í þessu máli, að einhver einn geti það og fullyrt að hann hafi rétt fyrir sér en aðrir rangt, eins og því miður hefur líka mikið borið á í þessari umræðu.

Í sölum Alþingis hafa gengið brigsl um leynd og áform um leynd, jafnvel um annarlega hagsmuni stjórnvalda og einstakra þingmanna. Mér finnst það ekki vera þeim til sóma sem þannig kjósa að haga orðum sínum. (Gripið fram í: Ertu búinn að fá Mishcon de Reya-gögnin? Leyndargögnin?) Ég vil bara segja að þau orð sem hér falla um að það sé ásetningur um að halda gögnum leyndum eða það sé ásetningur manna að hafa aðra hagsmuni en íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi eru ekki þeim til sóma sem þannig tala. Aðrir geta haft aðrar skoðanir á því og þeim er það frjálst. Ég trúi því að allir alþingismenn vilji leggja sig fram um að vinna að hag þjóðarinnar. Við getum að sjálfsögðu verið ósammála og okkur getur greint á um leiðir. Það er eðli stjórnmálanna að menn greini á um leiðir, jafnvel markmið, en í þessu efni er ég sannfærður um að allir vilja vinna sem best að hag þjóðarinnar.

Í málefnalegri umræðu kjósum við að sjálfsögðu oft að draga fram ólíka þætti máli okkar til stuðnings. Það er líka eðlilegt. Í öllum þeim álitsgerðum og gögnum sem hafa komið fram í þessu máli er það oftar en ekki svo að í sömu gögnum geta báðir málsaðilar, bæði stjórn og stjórnarandstaða, þeir sem eru fylgjandi því að þetta mál sé samþykkt og þeir sem eru því andvígir, fundið rökstuðning fyrir sínum málflutningi í sömu gögnunum. Það á t.d. við um þau lögfræðiálit sem nú síðast var aflað fyrir fjárlaganefnd. Menn geta ábyggilega fundið í þeim rök fyrir sínum málflutningi.

Hér hefur t.d. mikið verið vitnað í minnisblað sem þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi utanríkismálanefnd og um var beðið. Þá er dregið fram sérstaklega það sem hún skrifar um Brussel-viðmiðin og að þegar niðurstaða fékkst um þau hafi málið í raun verið núllstillt. Það er sama orðalag og hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Geir Haarde notar í sínu minnisblaði til utanríkismálanefndar. Það hefur hins vegar lítið farið fyrir því að menn dragi fram það sem segir m.a. í umræddu minnisblaði þáverandi utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Íslands lýsti eindregið þeirri afstöðu að Ísland vildi standa við alþjóðlegar skuldbindingar en yfirlýsingar voru engu að síður nokkuð misvísandi. Fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra höfðu báðir sagt við bresk stjórnvöld að Ísland myndi reyna að ábyrgjast lágmarksgreiðslur á innstæðureikningum. Seðlabankastjóri sagði aftur á móti í Kastljósi hinn 7. október að Ísland myndi hunsa með öllu erlendar skuldir bankanna. Í kjölfarið gaf forsætisráðherra út yfirlýsingu þann 8. október þar sem hann ítrekaði að ríkisstjórnin mundi styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda við öflun nægilegs fjár.“

Þetta kemur líka fram í umræddu minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, gagnrýni á framgöngu þáverandi seðlabankastjóra, en ég heyri að þingmenn Sjálfstæðisflokksins kjósa að draga þetta ekki sérstaklega fram.

Ég vil koma örstutt inn á vinnu fjárlaganefndar í sumar og nota þetta tækifæri til að segja, þar sem ég var starfandi varaformaður fjárlaganefndar þegar þetta mál var þar til umfjöllunar, að ég er stoltur af þeirri vinnu sem fjárlaganefnd öll lagði í þetta mál í sumar. Ég tel að tekist hafi góð samstaða um vinnubrögð og niðurstöður að því er varðar þá fyrirvara sem settir voru í lögin sem samþykkt voru í ágúst. Það voru mér mikil vonbrigði að sjálfstæðismenn, sem lögðu sannarlega mikið á sig við að ná samkomulagi um fyrirvarana, skyldu síðan ekki styðja málið í heild sinni þegar á hólminn var komið í þinginu. (Gripið fram í: Ásbjörn gerði það.) (Gripið fram í: Það gerðist … 28. ágúst.) Það var hins vegar þeirra ákvörðun að standa þannig að málum og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Þeim er að sjálfsögðu frjálst að gera það og hafa sjálfsagt fyrir því sín rök.

Ég vil nefna aðeins þau atriði sem sérstaklega hafa komið upp og m.a. verið vitnað til í ræðu formanns fjárlaganefndar eða orðum hans. Þegar sett var inn í lögin ákvæði um að það skyldi afla samþykkis viðsemjenda okkar við þeim fyrirvörum sem þá voru samþykktir var það að sjálfsögðu gert af fullum heilindum, líka af okkar hálfu sem erum í stjórnarflokkunum. Ég tek ekki undir það og vísa því reyndar algerlega á bug að eitthvað annað hafi vakað fyrir hv. formanni fjárlaganefndar. Hins vegar sagði ég skýrt að afla ætti samþykkis viðsemjenda okkar við þeim fyrirvörum og að sjálfsögðu var það þá verkefni framkvæmdarvaldsins sem fékk þessi lög þannig samþykkt að fara í þann leiðangur. Það var gert. Fyrirvararnir og lögin voru kynnt okkar viðsemjendum í þessu máli. Þau tóku sér alllangan umþóttunartíma, nokkrar vikur, til að fara yfir málið áður en þau brugðust við því. Þau sögðu að þau gætu fallist á þessa fyrirvara að frátöldum tilteknum atriðum sem þau tóku til. Hvað átti þá ríkisstjórnin að gera? Þá átti hún að mínu mati tvo kosti: Annaðhvort að segja einfaldlega: Þá falla bara þessi lög vegna þess að þau eru bundin. (Gripið fram í: Lögin falla ekki úr gildi …) Ríkisábyrgðin samkvæmt lögunum tekur ekki gildi nema viðsemjendur hafi fallist á þau. Það stendur í lögunum sjálfum og það er skýrt. Það stendur í lögunum sjálfum. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Er það rangt? Ég hvet hv. þingmann til að lesa lögin. Þar stendur að ríkisábyrgðin sé bundin því að þessir skilmálar séu kynntir viðsemjendunum og þeir hafi fallist á þá. (Gripið fram í: Ekki bara suma.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Annaðhvort gat ríkisstjórnin gert þetta eða þá hitt að koma til Alþingis og segja: Nú er það svo að viðsemjendur okkar geta fallist á þessa fyrirvara en ekki einhverja tiltekna aðra, og meta þá hvort við viljum gera nauðsynlega breytingu til að koma til móts við þessi sjónarmið eða ekki. Það gerði ríkisstjórnin og ég tel að það hafi verið eðlilegt og heiðarlegt af henni að koma þannig fram með málið til þings og láta þingið fjalla um hvernig það mæti málið miðað við þessa stöðu. Nú hristir hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir hausinn. Ég vil ekki segja að ég heyri það en hún má gera það eins og hún vill, svo ég noti hennar orð um undirritaðan.

Þetta var sú staða sem þá var komin upp og ég tel að ríkisstjórnin hafi gert rétt í því að koma með málið til þings og leggja það á borðið og fjalla þá um hvort menn vildu gera þær breytingar sem nauðsynlegar væru. Hér er hreint hagsmunamat á ferðinni. Þetta er bara mat á heildarhagsmunum þjóðarinnar, hvað er best fyrir hana í þeirri stöðu sem hún er í. Við erum öll sammála um að þetta er ólánsmál (Gripið fram í.) og enginn hefur sérstaka ánægju af því að þurfa að takast á við það eða þurfa að bera ábyrgð á því að standa undir þessum skuldbindingum. Ég bið hv. þingmenn að láta sér ekki detta það í hug eitt augnablik. Enginn hefur sérstakan áhuga því eða ánægju en við verðum líka að horfast í augu við okkar eigin gerðir. Við verðum líka að líta í eigin barm, rýna í okkar eigið sjálf og spyrja okkur að því hvað við gerðum rangt sjálf. Það er auðvelt að gera aðra að blóraböggli, telja okkur sjálf vera fórnarlamb, að heimurinn hafi snúist gegn okkur og krefjist þess að við stöndum skil á skuldum óreiðumanna í útlöndum. En erum við algerlega saklaust fórnarlamb í þessu öllu saman? Tókum við ekki þátt í útrásarveislunni á meðan á henni stóð? Létum við okkur ekki vel líka að bankarnir okkar væru orðnir hálfgildings stórveldi á erlendri grund, ekki bara í norrænu samhengi heldur einnig í hjarta fjármálastarfseminnar, London, Frankfurt, Lúxemborg? Ekki er svo að skilja að hér hafi verið um meðvirkni sérhvers Íslendings að ræða. (Gripið fram í.) Nei, en þetta var samfélagsleg meðvirkni. Þjóðfélagið var orðið gegnsýrt af aðdáun á þessari bólu sem engin eða lítil innstæða reyndist því miður fyrir. Spilaborgin hrundi. Það var það sem gerðist. Íslensk þjóð sat einn góðan veðurdag uppi með geigvænlegar skuldir og hrunið efnahags- og atvinnulíf. Þau stjórnvöld sem þá höfðu ráðið ferðinni létu hlutina þróast í þessa átt án þess að hafast að og almenningur sem hafði enga forsendu til að átta sig á hvert stefni hvað þetta varðar sat fyrr en varði með skuldasúpuna í fanginu en hafði sem betur fer döngun í sér til að hrekja þáverandi ríkisstjórn frá völdum.

Nú geta menn auðvitað spurt sig að því hvort við séum með betra mál í fanginu í dag. (REÁ: Ó, nei.) Hv. þingmaður segir ó, nei. Ég get tekið undir það, málið er ekkert betra. Icesave-skuldbindingarnar eru ekkert betri en þær hverfa ekki við það eitt að loka augunum. (SDG: Þetta eru ekki skuldbindingar.) (Gripið fram í.) Þetta eru ekki skuldbindingar, segir hv. þingmaður, formaður Framsóknarflokksins. Þetta eru að sjálfsögðu skuldbindingar. Íslenskar skuldbindingar sem við þurfum að gera upp við okkur hvort við ætlum að standa undir, hvort við ætlum að veita ríkisábyrgð á þeim eða ekki. Þetta mál hverfur ekki, hv. þingmaður, jafnvel þó að þingmaðurinn loki augunum fyrir því. (Gripið fram í.)

Í þessari umræðu hefur verið sagt að allir fyrirvararnir sem settir voru í sumar séu að engu orðnir. Ég mótmæli því. Ég tók þátt í því að vinna þessa fyrirvara. Það kann vel að vera að hv. þingmenn sem unnu að þessu með mér og úrræðum sjálfstæðismanna séu ósammála mér í því. Þá skulu þeir bara vera það en ég er þeirrar skoðunar að þessir fyrirvarar séu í öllum meginatriðum komnir inn í samninginn sjálfan, eins og lagt var upp með, og þeir haldi. Við getum verið ósammála um mat á stöðunni, við getum verið ósammála um hvaða leiðir á að fara miðað við þá stöðu sem við erum komin í nú og við getum öll verið sammála um að þetta er ólánsmál. Við skulum samt sem áður ekki bera hvert öðru á brýn að við göngum hagsmuna annarra en íslensku þjóðarinnar því það erum við sannarlega að gera. Mitt mat er að það sé betri kostur fyrir okkur — þó að allir kostir séu í raun slæmir í stöðunni — að takast á við þetta vandamál, ganga frá þessum samningum við þessa aðila og hefja endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs. Ég tel að mikið sé í húfi. Ég tel að nú ríði á að við leitum sem mestrar samstöðu meðal þjóðarinnar og samhug. Ég tel að þá geti ýtrustu sjónarmið þurft að víkja fyrir sameiginlegu markmiði um félagslegan jöfnuð, um réttlæti og sjálfbærni sem við erum að reyna að byggja upp. Við þurfum að sjálfsögðu að láta heildarhagsmunina sitja í fyrirrúmi. Það er mín afstaða og ég er einn þeirra sem vilja styðja þetta mál þrátt fyrir hvernig í það er búið og til þess var stofnað, (Forseti hringir.) að það séu heildarhagsmunir íslenskrar þjóðar að hefja heildarendurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs og að ljúka þessu máli með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um.