138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:25]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en lengra er haldið vil ég leggja á það áherslu að mitt mat er að þjóðirnar þrjár, Holland, Bretland og Ísland, hafi komist að samkomulagi um þennan samning eins og hann lítur út. Þetta er ekki einhliða ákvörðun af hálfu Breta og Hollendinga. Í því ljósi vil ég t.d. tiltaka hvernig fyrirvararnir líta út í núverandi samningi. Mér finnst það hálfankannaleg leið að freista þess að setjast að samningaborðinu aftur og ef það gengur ekki bíða þá eftir því að höfðað verið mál fyrir íslenskum dómstólum. Þá um leið eigum við það á hættu að auka á skuldabyrði íslensku þjóðarinnar um 600–700 milljarða til viðbótar og þá áhættu vil ég ekki taka.

Það er mikilvægara að við reynum að koma efnahagslífinu í gang á nýjan leik. Það veltur allt á því að við náum að ljúka Icesave-málinu sem allra fyrst til að við náum hjólum atvinnulífsins í gang á ný og náum þar með að breikka skattstofna eins og sjálfstæðismenn hafa rætt um, að við náum að styrkja stöðu fyrirtækja okkar, opinberra sem einkarekinna, því að efnahagslegar afleiðingar yrðu miklu verri af því að fresta endurreisninni um eitthvert árabil eins og Framsóknarflokkurinn leggur til.