138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Gert var fundarhlé vegna þess að fjárlaganefnd kom saman. Fyrir matarhlé kom fram fyrirspurn úr ræðustóli um það hvernig miðað hefði að útvega þau gögn sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafði óskað eftir á fundinum 22. desember þegar málið var afgreitt úr fjárlaganefnd inn í þingið. Þar benti hv. þingmaður á að í lögfræðiáliti Mishcon de Reya væru nefnd skjöl sem hv. þingmaður gæti ekki fundið í skjalasafni sem fylgdi málinu og sömuleiðis í svarbréfi sem Mishcon de Reya sendi fjárlaganefnd við athugasemdum sem gerðar höfðu verið við stofuna, kom líka tilvitnun í gögn.

Í framhaldi af þessari fyrirspurn var óskað eftir því við viðkomandi ráðuneyti að gengið yrði eftir því að þessi gögn fyndust og gerð að því gangskör. Svo virtist sem einhver ruglingur væri á dagsetningum í byrjun og menn fundu ekki gögnin eða sögðu að þau væru ekki til staðar í ráðuneytinu. Þetta mál gekk svo stig af stigi þannig að fyrr í dag fékk ég möppu frá Mishcon de Reya sem er með öll þau gögn sem fjármálaráðuneytið hefur um málið frá viðkomandi aðila. Mappan er unnin af Mishcon de Reya og afhent í tengslum við málið, dagsett hér 3. apríl. En eftir sem áður svaraði það engum spurningum, þar er var ekkert nýtt af gögnum nema bréf frá 11. mars sem varðaði Icesave-málið að mjög litlu leyti heldur Kaupþingsmálið sem Mishcon de Reya nefndi að vísu í áliti sínu en er ekki á okkar borði og ekki til umfjöllunar hér, enda var það málsókn sem farið var í vegna Kaupþings á vegum skilanefndar og slitastjórnar.

Í framhaldi af þessu óskaði ég eftir því bæði í gegnum fjármálaráðuneytið og í gegnum nefndasvið að lögmannsstofunni Mishcon de Reya yrði skrifað og óskað hreinlega eftir því að þar yrðu tekin saman þau gögn sem þeir hefðu um málið og send til okkar. Eftir að náðist í stofuna, það tókst ekki í gær og ekki í morgun, var sendur tölvupóstur út af þessu þar sem kallað var eftir þessum gögnum og núna um sjöleytið eða milli sex og sjö kom tölvupóstur sem er stílaður á fjárlaganefnd og því var þessi fundur haldinn. Að vísu er þessi tölvupóstur merktur „private“ og „confidential“ en hann var sendur raunar áður en ég las hann til nefndarmanna í fjárlaganefnd, eins og ég hef reynt að hafa sem vinnureglu að menn fái gögn um leið og ég fæ þau. Síðan höfum við verið að skoða hvað í þessu felst, hvað verið er að tala um og hér er sem sagt viðkomandi bréf og það verður gert opinbert um leið og við erum búin að halda fund í fjárlaganefnd og kynna málið.

Í þessu bréfi er bent á nokkur atriði sem mörg hver að vísu tengjast undirbúningi málsins á fyrri stigum en þó er hér bent á minnisblað frá Matthew Collings, dagsett 25. mars, sem sent var formanni samninganefndar. Síðan er það glærusýning sem unnin var fyrir samninganefndina líka og merkt formanni samninganefndar, Svavari Gestssyni, dagsett 26. mars, og er einn af þeim pappírum sem vísað var til og óskað hafði verið eftir. Þessi gögn eru ekki í möppunum, sagt er að þau hafi ekki verið prentuð út heldur eingöngu verið forvinna og undirbúningur undir fund sem utanríkisráðherra átti síðan 31. mars með Miliband í Bretlandi. Þriðji parturinn sem sendur er eru frumdrög að kynningu Mishcon de Reya fyrir utanríkisráðherra sem vitnað er í þarna líka, en þau gögn hafa verið lögð fram áður þó að þau séu dagsett 29. mars en fundurinn var 31. og Mishcon de Reya dagsetur það 31. mars hér.

Vitnað er til fleiri gagna. Talað er um minnisblöð frá fyrri ríkisstjórn varðandi Icesave og vitnað í undirbúning fyrir ECOFIN-fundinn, allt saman gögn sem voru unnin í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þessi gögn hafa í sjálfu sér ekki borist, þau eru kannski að berast þessar mínúturnar. Síðan voru einhver gögn varðandi það sem kallað hefur verið þriðja leiðin hjá Landsbankanum, sem var einmitt skoðun á því hvernig hægt væri að nýta eignir úr búi Landsbankans og fleira í tengslum við það. Talað er um bréf sem rituð hafi verið á milli nefndarinnar og í einhverjum tilfellum líka við fjármálaráðuneytið.

Síðan segir í þessu bréfi til okkar í fjárlaganefnd að svo kunni að vera að þetta geti varpað, þeir segja „may shed further light“ eða geti varpað skýrara ljósi á þau mál sem tengjast þessu máli að fá þessi gögn og þar af leiðandi eru þeir að taka þau saman að ósk fjárlaganefndar. Það sem virðist þarna um að ræða, öll þessi gögn eru fyrir þann tíma sem samningavinnan fer fram því að hún byrjar í apríl að meginstofni til, án þess að ég ætli svo sem að leggja mat á það fyrr en þessi gögn eru endanlega komin.

Loks er í bréfinu rætt almennt um það sama og kemur fram í lögfræðiáliti Mishcon de Reya, þeir ræða möguleikana í stöðunni og gerðu það í sínu áliti og það er ekkert nýtt í því. Þeir tala um að ef menn velja að fara í frekari skoðun á málinu þá bjóði þeir aðstoð við það og telja þá mjög mikilvægt að málið sé trúnaðarmál, sé ekki opinbert og ekki rætt. Þetta er nákvæmlega það sem við ræddum í fjárlaganefnd þegar skjalið kom frá Mishcon de Reya á sínum tíma. Þar var ákveðið að aflétta trúnaði af skjalinu þannig að menn hafa fengið það nefndarálit, það er raunar komið núna á íslensku bara í dag og menn geta því lesið það bæði á ensku og íslensku væntanlega á netinu. Ef það er ekki komið nú þegar er það væntanlegt á næstu klukkutímum.

Ég ætla svo sem ekki að leggja mat á það, það er ekkert nýtt í því sem við höfum séð af þessum gögnum, en það hefur verið ákveðið að halda trúnaði á þeim að ósk Mishcon de Reya, þ.e. af því að mikið af þessum gögnum sem við erum að fá tengist Kaupþingi sem hefur ekkert með Icesave-málið að gera. Það fjallar að einhverju leyti um Heritable Bank, sem var dótturfyrirtæki sem sett var í gjaldþrot úti í Bretlandi. Það gerðist nú á haustmánuðum og menn voru búnir að taka afstöðu til þess með hvaða hætti ætti að bregðast við því. Það komu vangaveltur um það hvort menn hefðu átt að nýta sér það betur hvernig Bretarnir fóru með það útibú. En það kom fram í viðræðum í nefndinni áðan að menn hefðu ekki talið það vera umboð samninganefndarinnar, einfaldlega vegna þessa að skilanefnd og slitastjórn voru með Heritable og bú Landsbankans og því ekki hægt eða eðlilegt að menn færu að blanda sér í þau skipti, enda væri það ekki löglegt gagnvart þeim sem áttu að fara með skipti á búi og gæta kröfuhafa í sambandi við búið.

Við ákváðum að fara síðan bara áfram í umræðuna um málið, þ.e. það eru nokkuð margir á mælendaskrá og þeir sem eru framsögumenn fyrir málinu hafa hér tækifæri til að ræða málið frekar, þannig að ég ætla í sjálfu sér ekki að gera frekar grein fyrir málinu. Þetta bréf er opinbert og til birtingar fyrir þá sem vilja. Í fljótu bragði get ég ekki séð að þarna sé um að ræða neitt sem hefur ekki komið fram með einum eða öðrum hætti í vinnunni. Menn vissu um þetta með að nýta Heritable og eins að nýta hugsanlega hryðjuverkalögin sem kemur líka fram í þessari glærusýningu, að þær hugmyndir voru nýttar, en það kemur fram í þessu bréfi ásökun um það eða fullyrðing, ég vil frekar orða það svo, að eftir þessa glærusýningu hafi menn ákveðið að breyta henni áður en kynningin fór fram gagnvart utanríkisráðherra, eða sem sagt tekið út þau mál sem ekki væru „relevant“ eða eðlileg í sambandi við samningaviðræðurnar sérstaklega.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um þetta mál hér, ég vil bara láta vita að þessi gögn séu komin fram. Síðan verðum við að fá tækifæri til að meta það í framhaldinu út frá þeim ráðleggingum sem við fáum hvenær og hvernig þessi gögn verða birt að öðru leyti. Eins og ég segi, mörg þeirra gagna sem voru komin eru hreinlega þannig að Mishcon de Reya er að senda okkur þau gögn sem þeir jafnvel fengu, m.a. varðandi Lovell-álitið. Menn muna kannski eftir því að lögfræðistofan Lovell vann mjög ítarlegt álit fyrir ríkisstjórnina, þ.e. fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, varðandi það hvort skynsamlegt, eðlilegt og raunhæft væri að fara í mál við breska ríkið út af hryðjuverkalögunum. Þetta álit hefur legið fyrir og menn hafa séð það og það eru því ekki ný gögn í þessu máli, en Mishcon de Reya er að senda slík gögn sem þeir höfðu af því að ég bað um að fá öll gögn sem þeir hefðu um málið. Við erum því í sjálfu sér að fá kópíur af málum sem eru komin fram áður.

Þetta skýrir vonandi hver staðan er og hvernig farið var með þetta mál að öðru leyti. Þingið verður svo að meta framhaldið hvað það varðar.