138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er ég á mælendaskrá, en ég kallaði eftir því í ræðu fyrr í dag að þau gögn sem óskað var eftir af hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni kæmu hér í hús og hv. þingmenn hefðu tækifæri til þess að kynna sér þau áður en málinu yrði lokið. Herra forseti. Ég tel að allir þingmenn hljóti að vera hálfslegnir yfir því að hér hafi verið upplýst að enn séu mikilvæg gögn sem við höfum ekki fengið að sjá þar sem fullyrt var núna síðast í þessum ræðustól af hv. þm. Birni Val Gíslasyni, varaformanni fjárlaganefndar, að öll gögn væru komin fram í málinu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur margoft sagt hér í pontu að öll gögn séu komin fram í málinu. Það hefur einfaldlega sýnt sig að einhver misskilningur er á ferðinni varðandi það. Ég tel því rétt og tek undir þær athugasemdir sem komið hafa fram hér á undan að þessum fundi verði frestað meðan farið verður yfir (Forseti hringir.) framgang málsins hér í þinginu með formönnum flokkanna.