138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið fannst mér þetta lítilfjörleg ræða, í rauninni til skammar í ljósi þeirra upplýsinga sem voru að berast hv. fjárlaganefnd. Ég ætla ekki að eiga í einhvers konar orðaskaki við hæstv. fjármálaráðherra því að hann hefur bæði haldið innblásnar ræður úr ræðustóli Alþingis um að við ættum ekki að greiða Icesave og snúist algerlega yfir í það að við verðum að samþykkja Icesave. Og líka heyrast stundum hjáróma raddir þeirra sem telja einstaka mál of flókin til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og yfir í að segja að Icesave-málið sé of flókið fyrir þjóðina til að greiða um atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar til að leiðrétta misskilning. Hér var fullyrt að þessi gögn sem bárust hefðu komið frá október til desember 2008 eða janúar 2009. Það kemur fram í áliti Mishcon de Reya að þau eru dagsett 25. mars 2009, 26. mars 2009 og 31. mars 2009 og við eigum enn eftir að fá skjöl sem hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) getur vitnað í og mér heyrist hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) líka en hv. fjárlaganefnd á ekki að fá (Forseti hringir.) gögnin.