138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessum gögnum sem bárust þinginu í kvöld er í kynningu frá Mishcon de Reya, sem dagsett er 26. mars 2009, sérstaklega nefnd hugsanleg málshöfðunarleið gagnvart breska fjármálaeftirlitinu sem aldrei áður hefur komið fram á sjónarsviðið. Þetta eru staðreyndir málsins. Þetta eru upplýsingar sem þessi ríkisstjórn hafði og ekki voru kunnar okkur þingmönnum fyrr en núna í kvöld — undir lok 3. umr. málsins. Skiptir það máli þegar þessi sama ríkisstjórn sem í kjölfar þess að hafa fengið þetta lögfræðiálit samdi sérstaklega um það við Breta og Hollendinga í sérstakri samningsgrein að halda uppi engum kröfum vegna þess sem gerst hafði við hrun þessara sömu banka í Bretlandi? Skiptir það máli að þessar upplýsingar komu núna inn í þingið? Ég tel svo vera. Ég held að það skipti okkur miklu máli þegar ríkisstjórnin óskar eftir því að fá heimild fjármálaráðherra til að staðfesta ríkisábyrgð fyrir þessum vondu samningum að allar upplýsingar séu uppi á borðum og kunngerðar í þinginu. Þingið verður að leggja sjálfstætt mat á það hvort (Forseti hringir.) ríkisstjórnin hafi staðið sig í þeirri hagsmunagæslu sem henni bar að sinna í sinni vinnu (Forseti hringir.) og við erum að fá staðfest enn frekar í kvöld, en komið hefur í ljós fram til þessa að svo hefur ekki verið.