138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil sérstaklega fagna þessum orðum hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Já, samráð allra flokka á þessu stigi er mjög mikilvægt og helst þannig að við getum klárað allt málið í heild sinni sameinuð og samhent.

Við erum að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna og förum samhent í það verk. Eitt útilokar þó ekki annað og á meðan verið er að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna þurfum við að tala saman og vinna sameiginlega að því að verja hagsmuni Íslands. Við höfum hljómgrunn á erlendri grundu, nýtum okkur það. Nýtum okkur það að við erum öll, svona velflest vona ég, reiðubúin að komast upp úr skotgröfunum. Ég held að við eigum að reyna að einbeita okkur að því máli núna.

Ég tek undir með mennta- og menningarmálaráðherra um það að við eigum líka að einbeita okkur að því að hafa upplýsingamálin í lagi. Mér sýnist forseti Íslands hafa lagt gjörva hönd á plóg og hann hefur staðið sig vel á síðustu dögum varðandi það að verja hagsmuni Íslands og mér sýnist að ríkisstjórnin sé að hysja svolítið upp um sig buxurnar á þeim vettvangi og sé að gera góða hluti. (Forseti hringir.) Ég treysti því að við munum öll fara sameinuð í það verk að standa vörð um hagsmuni Íslands.