138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Staðan er sú að við samþykkjum örugglega í dag frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu og undirbúningur að henni mun væntanlega halda áfram. Hins vegar er tækifæri til að ákveða hvert við förum héðan, hvernig við ætlum að taka málið frá þeim tímapunkti og leiða það til lykta.

Ætlum við að reyna aðrar leiðir fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni? Ég tel að það sé skylda okkar að gera það. Það verður best gert með því að þverpólitísk nefnd eða einhvers konar sáttanefnd eða hvað á að kalla það fari í það að skoða hvað er mögulegt. Ég held að ekki sé hægt að segja fyrir fram hvað er hægt og hvað ekki. Við sjáum það í erlendum miðlum, af viðbrögðum erlendis frá og frá fólki sem er að tala okkar máli að vegna ákvörðunar forsetans er ákveðið tækifæri til að koma málstað okkar betur á framfæri. (Forseti hringir.) Það er ekki vegna þess að einhver hafi staðið sig vel eða illa að þetta tækifæri gefst heldur vegna þess að það er, (Forseti hringir.) svo ég sletti, frú forseti, ákveðið „break“ í þessu máli.