138. löggjafarþing — 69. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[19:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vek jafnframt athygli á því að það sem gerðist hérna 5. janúar er fordæmisgefandi og ætti að vera hvatning til þess að þau frumvörp sem liggja fyrir í allsherjarnefnd um þjóðaratkvæðagreiðslur verði meðhöndluð þannig að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum aftur. Það er það sem gerðist hér í dag. Ég skora á alla þingmenn að leyfa þjóðinni að fá að hafa eitthvað um sín mál að segja.

Það eina sem mér fannst kannski svolítið leiðinlegt og það hefur eiginlega ekkert að gera með hv. þingmenn hérna, er hvað textinn í þessu frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur er ömurlegur. Þessi spurning er svo óskýr og ég sá í sjónvarpinu að þetta sprengir alla skala í málfari og málskilningi. Það hefði verið ágætt ef það hefði verið hægt að hafa textann á mannamáli líka.