138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

bréf forsætisráðherra til forseta Íslands.

[12:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef talað um það áður í þessum ræðustól að þessi fyrirspurnatími er gagnslaus nema hæstv. ráðherrar svari þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar. Í þessu tilfelli var ég að tala um Breta og Hollendinga og það sem segir í þessu bréfi um uppgjör búsins:

„Sem slíkir mundu þeir ráða afar miklu um hvernig úr því vinnst og hafa áhrif á hvernig það heldur á málum m.a. gagnvart íslenskum aðilum sem eru skuldunautar þrotabúsins.“

Ég er að tala um þessa skuldunauta þrotabúsins. Hverjir eru þeir, hvað skulda þeir mikið og hvaða veð liggja þarna að baki? Hvaða hindranir eru í vegi fyrir því að Bretar og Hollendingar verði eigendur þrotabús Landsbankans? Eru þjóðhagslega mikilvægir hagsmunir að baki sem gera það ókleift að þessar skuldir verði afhentar Bretum og Hollendingum?

Úr því að hæstv. forsætisráðherra skrifar með þessum hætti bréf til forsetans hlýtur krafa þingmanna og þjóðarinnar að vera að fá úr því skorið um hvaða skuldunauta (Forseti hringir.) er að ræða þarna, sérstaklega þar sem verið er að leggja drápsklyfjar á þjóðina.