138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

stjórn Ríkisútvarpsins.

[12:33]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Án umræðu, án rökstuðnings, án atkvæðagreiðslu vorum við að setja Ríkisútvarpinu nýja stjórn. Hjá þessari stofnun er allt upp í loft. Hún fer fram úr fjárheimildum trekk í trekk og nú síðast hefur sá einvaldur sem ráðinn hefur verið til að stjórna þessari stofnun hafið stríð við íslenska kvikmyndagerð með því að gera kvikmyndagerðarmenn að barefli í einhverju undarlegu stríði sínu við stjórnvöld í landinu.

Ríkisútvarp á að vera einn af hornsteinum íslenskrar kvikmyndagerðar, íslensk kvikmyndagerð er einn af hornsteinum Ríkisútvarpsins. Svo er ekki núna og íslensk kvikmyndagerð hefur orðið að þola af okkar hálfu sem sitjum hér þann ósvífnasta og óréttlátasta niðurskurð sem um getur á þeim niðurskurðartímum sem við nú lifum. Nú þarf íslensk kvikmyndagerð á stuðningi að halda og allra síst þarf hún á því að halda að verða fyrir árásum af hálfu Ríkisútvarpsins. Þarna þarf að taka til.

Að þessu sögðu spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða stefnu eða fyrirmælum frá eiganda fyrirtækisins á nýkjörin stjórn Ríkisútvarpsins að framfylgja? Eða á stjórnin að leika af fingrum fram og stjórna þessari menningarstofnun af brjóstviti sínu?