138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnalegt og gott andsvar. Ég er afskaplega ánægður að heyra það. Það er algjörlega okkar allra hagur og ég ætla ekkert að fara yfir þau mistök sem hafa verið gerð, það er til lítils, en ef við erum búin að læra af þeim er það mjög gott. Þetta mál er mjög stórt og það er ekki markmið í sjálfu sér, alls ekki, að vera lengi með mál bara til að vera lengi með þau. Við þurfum að byrja strax að vinna að þessu, en hins vegar væri mjög slæmt ef sett væri sú pressa á að við næðum ekki að taka þá vinnu í þetta sem nauðsynleg er. Ég heyri á hæstv. ráðherra að það er ekki meiningin og ég fagna ummælum hans alveg sérstaklega og þakka honum fyrir þá afstöðu.

Síðan erum við hæstv. ráðherra algjörlega sammála þegar kemur að flækjustiginu. Hann nefndi þessar fjármálaafurðir sem eru flestum illskiljanlegar. Síðan er bara spurningin hvernig við nálgumst það. Ef við byrjum að banna hluti hafa klókir einstaklingar lag á því að fara fram hjá því. Það gæti hugsanlega verið lausnin — og ég er bara hér að hugsa upphátt, virðulegi forseti — að gera hins vegar þá kröfu að hver fjármálaafurð, sama hver hún er, sé skiljanleg, það liggi fyrir hvar kostnaðurinn er og áhættan. Einhver til þess bær aðili verður að meta það. Ég veit ekki hver er besta leiðin í þessu en sagan kennir okkur að eftir ákveðinn tíma hafi menn tilhneigingu til að komast fram hjá boðum og bönnum hvað þetta varðar. Þess vegna þurfum við að vanda einstaklega vel til þessa (Forseti hringir.) til að koma í veg fyrir að sitja uppi með flóknar afurðir sem leiða af sér, í okkar tilfelli, skelfingu.