138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég geri athugasemd við þá dagskrá sem hér er. Það er alveg ljóst að það er ekki mikill metnaður hjá ríkisstjórninni þegar við komum saman á ný, frú forseti, og ætti þingið því í raun að hafa forgöngu um að draga fram mikilvægari mál.

Í dag á þessi ágæta ríkisstjórn ársafmæli og því er ekki úr vegi að auglýsa eftir alvöruaðgerðum fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Á sínum tíma var talað um að það þyrfti að koma nýtt verkstjórnarvald, held ég að það heiti eða eitthvað slíkt. Ég man ekki eftir að hafa heyrt það orð fyrr en þá og nú spyr ég: Hvar er sú verkstjórn? Við komum saman á ný á Alþingi í fyrsta sinn á þessu ári til að hefja hin venjubundnu þingstörf og þá er ekki eitt einasta mál hér þar sem ræða á um heimilin eða fyrirtækin, eitthvað sem skiptir máli um framtíð þeirra. Við vitum öll hvernig staðan er en hér ætlum við að hefja störfin á því að ræða um mál sem skipta vissulega máli, handtöku og afhendingu manna milli Norðurlanda, náttúruverndaráætlun sem m.a. þeir sem flytja hana hafa sjálfir gert lítið úr og síðan eru nokkur mál um vestnorræn samskipti.

Hvar eru heimilin og hvar eru fyrirtækin? Mér finnst, forseti, að koma þurfi þeim skilaboðum til forustumanna ríkisstjórnarinnar að hér þurfi að forgangsraða upp á nýtt.