138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú tekur þing til starfa á ný eftir áramót. Við hittumst á föstudaginn var. Þá var varla hægt að tala um dagskrá því að þar var eitt mál á dagskrá og svo heldur grínið áfram í dag. Ég ber meiri virðingu fyrir starfi mínu en svo að ég geti tekið þátt í illa unnum og jafnvel ekki unnum þingsályktunartillögum eins og liggja fyrir þinginu í dag. Þriðji dagskrárliðurinn, náttúruverndaráætlun, kemur fyrir þingið til síðari umr. í formi þingsályktunartillögu. Sú náttúruverndaráætlun er algjörlega órædd í þeirri umhverfisnefnd sem nú situr því að hafi ríkisstjórnin ekki vitað af því urðu hér þingkosningar í fyrravor þannig að sú umræða sem átti sér stað á fyrra þingi er ekki sú umræða sem á sér stað núna.

Frú forseti. Ég óska eftir því að 3. dagskrárliður á þessari dagskrá verði tekinn af dagskrá (Forseti hringir.) svo þetta mál fái betri umræðu í umhverfisnefnd svo málið yfir höfuð sé þingtækt.