138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[15:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Okkur er mörgum tíðrætt og umhugað um stöðu heimilanna og við höfum fylgst vel með og jafnvel mætt á þá baráttu- og mótmælafundi sem haldnir hafa verið í borginni til að leggja áherslu á alvarleikann í því máli.

Ég saknaði þess svolítið að heyra ekki meira frá hæstv. ráðherra hvaða aðgerðir eru á döfinni til að koma að eða byrja í rauninni að gera einhverjar alvörubreytingar sem gagnast heimilunum. Það hefur komið fram mikil gagnrýni á það sem hefur verið gert hingað til. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvaða vinna sé í gangi í ráðuneyti hans til þess að koma enn meira og betur til móts við þarfir heimilanna og þá sérstaklega varðandi skuldir þeirra, húsnæðisskuldir og annað.