138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:18]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu vil ég lýsa yfir ánægju með undirtektir hv. þm. Þuríðar Backman á breytingartillögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og ég reikna með að tillagan fái gott brautargengi ef ætlunin er sú sem mér heyrist að þetta mál verði unnið til enda í þinginu.

Ég skal alveg viðurkenna að undir þeirri umræðu sem hér hefur staðið og raunar einnig umræðunni á síðasta ári hef ég verið dálítið hugsi og velt fyrir mér í hvaða farveg þessi mál væru komin. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að þokkaleg sátt er um það hjá öllum stjórnmálaflokkum að framkvæmd umhverfismála sé með þeim hætti að vinna sem minnst og helst engin spjöll á landi. Ég held að það sé sameiginlegt hjá öllum flokkum þannig að ég held mig við þá pólitík.

Hins vegar er mjög mikill munur á því með hvaða hætti menn keyra þessi mál fram og ég kýs að líta svo á að oft og tíðum sé það gert með einhverjum þeim hætti að þeim sé viljandi stillt upp á þann veg að til ágreinings komi milli stjórnmálaafla og sumir vilja eigna sér þennan málaflokk umfram aðra stjórnmálaflokka og það er miður að koma málunum í þann farveg.

Ég er mjög hugsi yfir því sem kemur fram með beinum orðum í nefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar um þá þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun sem hér liggur fyrir og ætlast er til að Alþingi afgreiði. Í meirihlutaáliti nefndarinnar segir að þetta sé í rauninni viljayfirlýsing fremur en staðfastur vilji og ákvörðun Alþingis. Ef þetta er grunnurinn að þingsályktun um náttúruverndaráætlun, þá er kannski ekkert skrýtið þó að mál hafi gengið með þessum hætti, en það kemur ágætlega fram í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að þetta er önnur þingsályktunin sem kemur fram í þessa veru. Hin gilti fyrir árin 2004–2009 eða raunar 2008 og mönnum hefur gengið afskaplega illa að koma í verk þeim áformum eða þeim vilja, ef við köllum þetta svo á Alþingi, sem birtist í þeirri áætlun. Ég hef fengið á tilfinninguna við þessa umræðu og raunar í fyrra líka að það sem rekur á eftir þessu sé lagaleg skuldbinding um að þingsályktun sem þessa skuli leggja fram á fimm ára fresti og það reki frekar á eftir því að þetta skuli unnið fremur en það að leggjast yfir málið, eins og rætt var við fyrri umræðu, til að reyna að ná því fram hvernig við getum unnið betur að framgangi þeirra mála sem koma fram í þeirri þingsályktun sem Alþingi samþykkti. Ég held að það sé miklu verðugra viðfangsefni að leggjast yfir það hvað veldur því að hlutirnir vinnast ekki betur en raun ber vitni.

Hér kemur t.d. fram hvernig þessi grunnur er myndaður, hv. þm. Þuríður Backman vitnaði til þess að þetta hafi verið lagt fram af fyrri ríkisstjórn og menn hefðu þá á einhvern hátt átt að vera skuldbundnir þeirri vinnu. Í greinargerð með þingsályktuninni er tiltekið hvernig starfshópurinn sem umhverfisráðherra skipaði árið 2007 var samsettur og sömuleiðis er undirstrikað að sú vinna sem honum var ætlað að sinna hafi tekið lengri tíma og leitt til þess að ekki var svigrúm til að fara með tillögur að áætlun í almennt kynningar- og athugasemdaferli eins og var uppálagt og allir horfðu til að yrði gert. Þess vegna er umræðan víða mjög hörð og það kemur ágætlega fram í erindi sem áðurnefndur einstaklingur, ágætur náttúrufræðingur, Helgi Hallgrímsson, setti saman fyrir að ég held sveitarstjórn Fljótsdalshrepps um friðlýsingartillögur fyrir árin 2003–2008. Ég ætla að lesa örstuttan kafla upp úr áliti hans eða athugasemdum og, með leyfi forseta, hljóðar þetta svo:

„Þessi fyrsta áætlun er að sjálfsögðu heldur vanburðug þar sem um algera frumsmíð er að ræða. Það er áberandi að tillögur um friðlýsingu eru oft ekki raunhæfar enda hefur sáralítið verið unnið að framkvæmd þeirra. Áætlunin byggist eingöngu á tillögum opinberra stofnana, örfáar ábendingar hafa komið frá sveitarfélögum, engar frá náttúrustofum eða félögum og samtökum um náttúruvernd sem flest hafa unnið að skráningu náttúruminja í áratugi og búa yfir mun meiri staðþekkingu en opinberar stofnanir í Reykjavík.“

Svo mörg voru þau orð og ég held, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að þetta sé almenn skynjun fólks víða um land á þeim verkefnum sem sett hafa verið fram í tillögu til þingsályktunar. Þetta er náttúruverndaráætlun og ég hefði álitið að til að reyna að skapa aðeins meiri og betri sátt um þessa hluti væri ástæða fyrir yfirvöld umhverfismála á Íslandi að vinna að setningu þingsályktunartillögu eða náttúruverndaráætlunar í miklu betri sátt við fólk en verið hefur. Þetta kristallast ágætlega í þeim tillögum sem hér hefur verið mikið rætt um og varða Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta. Það er reyndar alveg með ólíkindum að fara yfir það mál í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað á síðasta ári og á sér enn stað. Í þeirri tillögu sem umhverfisnefnd afgreiddi 9. desember er þetta mál enn inni þrátt fyrir mjög alvarlegar athugasemdir sem landeigendur, sveitarfélög og náttúrufræðingar sem til þekkja hafa sett hafa fram varðandi þessa þætti. Það er með hreinum ólíkindum að ekki skuli tekið tillit til athugasemda sem þessara. Engu að síður, eins og formaður hv. umhverfisnefndar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, lýsti yfir hér áðan í andsvari að ég held, var þetta mál afgreitt út úr umhverfisnefnd 9. desember og gert ráð fyrir þessari tillögu að friðlýsingu Egilsstaðaskógar og Egilsstaðakletta. Umhverfisráðherra staðfesti síðan aðalskipulag sveitarfélagsins 21. desember. Engu að síður erum við 1. febrúar, rúmum mánuði síðar, að ræða vilja Alþingis til að friðlýsa þetta svæði. Hvers vegna í ósköpunum má ekki breyta þessu þegar ráðherra umhverfismála hefur staðfest mjög vel ígrundaða tillögu sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs sem hefur lagt mjög mikinn metnað í vinnslu þessara mála? Nei, þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir við þetta skal engu að síður fara fram með málið og er nema von að ekki ríki traust á milli þeirra sem eiga við þessi mál heima í héraði og þeirra sem eru í reglugerðarsetningunni syðra. Það er grundvallaratriði ef menn meina eitthvað með því að reyna að skapa sátt um þessa framkvæmd mála að á svona hortittum — ég vil leyfa mér að kalla þá það — verði tekið í ljósi þeirra upplýsinga sem komnar eru fram um afgreiðslu umhverfisráðherrans hæstv. á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Að þessi tillaga meiri hluta umhverfisnefndar um það að Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar skuli vera inni á þessari náttúruverndaráætlun er alger tímaskekkja. Ég tel einboðið að ákvörðun sveitarstjórnarinnar í tillögugerð varðandi aðalskipulag og ákvörðun umhverfisráðherra um staðfestingu þess verði ráðandi við þessa gerð því eins og hv. formaður umhverfisnefndar lýsti yfir er þetta einungis viljayfirlýsing Alþingis og ég tel mjög hæpið að ganga gegn þegar teknum ákvörðunum og ekki síður þeim athugasemdum sem landeigandi á Egilsstöðum I hefur sett fram og eru mjög vel rökstuddar. Það er með hreinum ólíkindum að gengið sé fram með þeim hætti sem hér er ætlunin að gera.

Það er annað atriði sem full ástæða er til að nefna í þessu sambandi og lýtur að því hvernig við göngum um þær samþykktir sem gerðar hafa verið. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé með neinum hætti ásættanlegt hvernig unnið hefur verið að þessum málum. Í greinargerð með þingsályktuninni kemur fram að takmarkaðar upplýsingar séu til um náttúrufar friðlýstra svæða þrátt fyrir að tveir þriðju hlutar þeirra hafi verið friðlýstir í 20 ár. Jafnframt er sagt og bent á að mikilvægt sé að bæta úr þessum þekkingarskorti í tengslum við undirbúning náttúruverndaráætlunar fyrir árin 2014–2018. Það er ekki með neinum hætti rökstutt hvers vegna við getum ekki gengið til þess verks strax. (Gripið fram í: Það vantar peninga.) Það er bent á úr sal, virðulegi forseti, að það vanti peninga. Er einhver trygging fyrir því að ekki vanti peninga árið 2014? Ég held að þetta séu slík grundvallaratriði að ekki megi gera lítið úr þeim með þeim hætti að segja að þetta sé bara peningaskortur. Þetta er spurning um forgangsröðun verkefna og vandaða vinnu. En eins og hér hefur verið rakið, bæði í mínu máli og annarra sem hafa tekið til máls, þá er miklu fremur vaðið fram með þeim hætti að segja: Þetta viljum við gera. Án þess að fullur rökstuðningur liggi að baki. Þetta gerir ekkert annað en að efna til enn frekari ófriðar um þessi mál og vel kann að vera að það sé vilji eða þjóni einhverjum pólitískum hagsmunum tiltekinna stjórnmálaafla að vinna með þeim hætti. Ég trúi því ekki. Ég hefði álitið að það væri miklu fremur vilji og miklu meiri þörf á því að menn ynnu þetta með ígrunduðum og vel gaumgæfðum hætti. Þá hlýtur það að kalla á það að við förum hægar í því offorsi að sölsa undir okkur með einhverjum hætti, ef svo má kalla, opinbera umsýslu fyrir tiltekin svæði heldur rökstyðja með miklu betri hætti heldur en gert hefur verið að þörf sé á því að gera þetta, sýna fram á það hverju friðlýsing hefur skilað, en mjög takmörkuð gögn eru fyrir hendi til að hægt sé að reiða þær upplýsingar fram. Hvernig svo sem menn kjósa að líta á þetta þá er ljóst að í mörgum tilfellum þegar gerðar eru tillögur um friðlýsingu ákveðinna svæða — ég held að allir eða flestir sem um þessi mál sýsla séu inni á því að nauðsynlegt sé að vinna að slíku verki — eru greinilega mjög skiptar skoðanir um það með hvaða hætti það eigi að gera og hvernig forgangsröðunin við þau verkefni eigi að vera og hvernig spila eigi úr þeim takmörkuðu fjármunum sem til ráðstöfunar eru.