138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með umræðuna um aðalskipulag Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Mig langaði að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir það svar sem hún gaf og sneri að núgildandi lögum. Þá er því við að bæta að þessi tvö sveitarfélög standa ólíkt að og það er sérkennilegt að það skuli vera með sama hætti sama afgreiðsla. Í tilviki Flóahrepps er það rétt að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra úrskurðaði fyrst að ekkert væri athugavert við þennan samning. Síðan var kært aftur, þ.e. samninginn, og þá voru gerðar ákveðnar athugasemdir. Sveitarfélagið brást við því og endurgreiddi Landsvirkjun allar slíkar greiðslur og henti út greinum í samskiptum við Landsvirkjun þar að lútandi og var þar af leiðandi búið að uppfylla núgildandi lagaskyldur, óháð því að ótal fordæmi eru til um það að sveitarfélög láti með einum eða öðrum hætti slíka stóraðila sem eru með framkvæmdir á svæðinu eða áætlanir um framkvæmdir greiða fyrir þann kostnað sem þeir valda sveitarfélaginu enda er það í mörgum tilvikum þannig að samfélagið nýtur einskis af þeim framkvæmdum.

Mér finnst það því umhugsunarefni að þetta ákvæði skuli vera notað til þess og ég hef áhyggjur af því. Ég vil ítreka hvort það sé ekki enn vilji núverandi formanns umhverfisnefndar og þáverandi umhverfisráðherra að þetta ákvæði sé sett inn í skipulagslögin sem verða sett, hvort það sé ekki enn mjög virkur og nauðsynlegur áhugi vegna þess að það er mjög mikilvægt að þessi lagarammi sé skýr. Hann hefur verið óskýr og umhverfisráðherra er að notfæra sér það að hann sé óskýr og vísar hvergi til neinna fordæma.

Ég ætlaðist ekki til að hér yrði svarað um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar en ég hefði samt líka áhuga á því að heyra við annað tækifæri hvað menn teldu eðlilegt að mál dveldu lengi í ráðuneytum áður en þeim væri synjað, hvort sem það eru borðleggjandi eða flókin mál.