138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hefja almenna umræðu um þetta frumvarp í þessu andsvari enda gefst tækifæri til þess á eftir. Ég vil aðeins vekja athygli á frekar sakleysislegri breytingartillögu sem er eina breytingartillagan frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og lýtur að ráðstöfun þess fjármagns sem ætlunin er að afla með úthlutun eða uppboði á aflaheimildum í skötusel.

Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir því að hluti þessa fjármagns rynni til AVS-sjóðsins en hluti ætti síðan að fara inn í byggðaáætlun og eins og greint er frá í athugasemdum frumvarpsins er markmiðið með þessum styrkjum að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum.

Síðan vekur athygli að horfið er frá þessari byggðapólitísku hugsun sem vissulega örlar á í frumvarpinu eins og það var upphaflega lagt fram. Í stað þess að setja þetta inn í byggðaáætlun var hugmyndin sú með breytingartillögum meiri hlutans að leggja þessa fjármuni til sjóðs sem kallast Átak til atvinnusköpunar . Þessi sjóður hefur ekkert með byggðamál að gera. Þessi sjóður á að fjármagna nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja eins og það er skilgreint á heimasíðu þessa sjóðs. Með öðrum orðum er verið að hverfa frá þeirri byggðapólitísku áherslu sem þó örlaði á í þessu frumvarpi og nú er ætlunin að leggja þessa fjármuni til annarra hluta.

Ég geri ekki lítið úr verkefnum sem Átak til atvinnusköpunar vinnur að en það vekur óneitanlega mikla athygli að í þessari sakleysislegu breytingartillögu er horfið frá þeirri stefnumótun sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði upp með og þess í stað ákveðið að veita þessa fjármuni til annarra hluta. Þegar þessi mál voru kynnt í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd við lokaafgreiðslu málsins var ítrekað leitað eftir skýringum á þessu. Þær skýringar fengust ekki og því spyr ég hv. (Forseti hringir.) framsögumann meirihlutaálitsins: Hvað víkur við, hvers vegna er (Forseti hringir.) gefin út stefnumarkandi yfirlýsing um að hverfa frá stuðningi við (Forseti hringir.) sjávarbyggðirnar sérstaklega og veita þessa fjármuni í þann (Forseti hringir.) farveg sem gert er ráð fyrir í breytingartillögunum?