138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:00]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það er einhver með hótanir er það hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sem segir að útvegsmenn séu að fyrirgera rétti til friðsamlegra samskipta með því að benda á með fullum rökum að það sé ástæða til að sigla flotanum í land til að knýja á um að stjórnvöld landsins afnemi þá óvissu sem ríkir með þeim hugmyndum sem eru í umræðu varðandi fyrningarleiðina. Það er þá best að slátra strax en leiða ekki menn marga hringi í kringum sláturhúsið. Það verður að taka afstöðu til þessara mála þannig að menn geti skipulagt vinnuna sína. Það er þannig, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, að það er ekki nóg að kunna að babla á bók. Menn þurfa líka að hafa reynslu og taka tillit til þeirra sem hafa reynsluna og eru að sinna verkefnum í landinu. Það er sjávarútvegurinn að gera. Það er gríðarlega flókin atvinnugrein að reka sjávarútveg á Íslandi. Það er ekki bara nóg að fara að veiða, heldur þarf að vinna, markaðssetja o.s.frv. Það er ein órofaheild sem þarf að taka tillit til.

Ef hv. þingmaður hefur ekki skilið það sem hún sagði í ræðu sinni get ég ekki útskýrt það frekar, en ræðuna er hægt að hlusta á í gögnum þingsins. Hún sagði að við það að takmarka veiðiskylduna væri hægt að auka aflann. Það er mjög sérkennilegt. Það er nýstárleg hugmynd þó að ég skilji ekki þá ljóðagerð sem þar er að verki. Það er lágmark að fjallað sé um þessi mál af virðingu við sjávarútveginn, byggðir landsins og sjómenn og að þannig sé gengið að verki að það séu engin óvissuatriði að óþörfu í þeim efnum. Það sem er verið að fjalla um í þeim flækjufæti sem hér er til umræðu er ekki af hinu góða.