138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu og afskaplega fróðlega, sérstaklega varðandi það hvenær skötuselurinn fer af stað og hreyfir sig. En mig langar til að spyrja hv. þingmann um makrílinn. Hann segist hafa skilning á því að ríkisstjórnin fari þá leið að ætla að stýra því hvernig menn verka þetta. Hefði ekki verið miklu nær að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði gefið út yfirlýsingu um að veiðireynsla í makríl yrði miðuð við verðmæti en ekki magn? Ef hann hefði gefið þá yfirlýsingu strax hefðu menn reynt að fá eins mikil verðmæti fyrir fiskinn og hægt var því að það er einmitt aðall aflamarkskerfisins versus sóknarmarkskerfi að menn reyna að fá eins mikil verðmæti fyrir fiskinn og hægt er en ekki endilega að veiða mikið.

Varðandi djúpkarfann og gullkarfann og hvort ekki sé eðlilegt að menn fái bara úthlutaða þeim tegundum sem þeir hafa veitt, að þeir sem hafa veitt mikið af djúpkarfa fái aflahlutdeild í þeirri tegund og þeir sem hafa veitt mikið í gullkarfa fái hlutdeild í þeirri tegund, þannig að það komi ekki upp þetta misræmi að menn fái að veiða fisk sem þeir geta ekki veitt.