138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hægt að gefa það klára svar að það er alveg fráleitt að ráðherra leggi til við þingið að þetta frumvarp verði dregið til baka. Málið er í höndum þingsins og þetta er hið besta mál.

Varðandi verkefni starfshópsins ítreka ég að honum er ætlað, eins og kveðið er á um í erindisbréfi hans, að skilgreina helstu álitaefni sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim og láta vinna nauðsynlegar greiningar, setja fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti (Gripið fram í.) og að sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórn meðal þjóðarinnar. Meira að segja er viss hvatning í því að menn leiði fram fleiri en einn valkost ef starfshópurinn vill það eða getur gert það. Það eru skiptar skoðanir um fiskveiðistjórnarkerfið og auk þess er líka varðandi einstaka þætti hægt að nálgast sömu markmiðin eftir mismunandi leiðum. Það er ætlunin að starfshópurinn fái það hlutverk að laða þá valkosti fram.

Eins og stendur í erindisbréfinu er starfshópnum gert að skila af sér fyrir tiltekinn tíma, reyndar var miðað við 1. nóvember sem er liðinn. Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar. Þetta er búið að standa í þessu erindisbréfi allan tímann þannig að ég skora á þá aðila sem þarna er boðið að borði að þeir haldi áfram og axli þá ábyrgð sem erindisbréfið kveður á um.