138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í þeirri umræðu sem fór fram um Icesave-málið svokallaða í þingsölum var mikið kallað eftir því að það væri öruggt að við þingmenn hefðum í höndum öll gögn sem skiptu máli til að geta komist að niðurstöðu í þessu mikla og flókna hagsmunamáli Íslendinga um hvernig við ættum að verjast kröfum Breta og Hollendinga. Aftur og aftur var fullyrt af hálfu ríkisstjórnarinnar að öll gögn lægju fyrir, enda væri það í takti við þá stefnu sem ríkisstjórnin hygðist starfa eftir sem væri sú að lögð væri full áhersla á gagnsæi og að öll gögn væru opin fyrir þingmönnum og þjóðinni. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna að hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu á Alþingi þann 30. desember sl. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hafa verið sökuð um leynd og pukur í þessu máli. Ekkert er fjarri sanni.“

Sami hæstv. ráðherra lætur síðan hafa það eftir sér á vefmiðlinum visir.is þann 2. febrúar á þessu ári að hann hafi verið bundinn trúnaði um ýmsar upplýsingar sem skiptu máli varðandi Icesave-málið. Með öðrum orðum, ráðherranum hafi verið kunnugt um upplýsingar sem hann hafi ekki deilt með Alþingi Íslendinga.

Nú kann svo að vera, frú forseti, að einhverjar upplýsingar hafi verið fyrir hendi sem ráðherrann hafi ekki talið sig geta komið til skila til almennra þingmanna. Þá var honum sú leið opin að fara á fund utanríkismálanefndar þar sem ríkir trúnaður og gera þeirri nefnd grein fyrir því. Það var rangt af ráðherranum að halda því fram að allar upplýsingar lægju fyrir þingmönnum. Því vil ég spyrja hv. formann fjárlaganefndar sem komið hefur mikið að þessum málum: Vissi hann af því að hæstv. fjármálaráðherra bjó yfir slíkum upplýsingum sem hann gat ekki deilt með þingi og þjóð? Ef svo var ekki, er hann þá sáttur (Forseti hringir.) við að svo hafi verið? Er hv. þingmaður sáttur við að hæstv. ráðherra skuli fara fram með þeim hætti sem hér greinir, að segja þinginu að (Forseti hringir.) eitthvert pukur væri til staðar en koma síðan nokkrum dögum seinna og segja að hann hafi verið bundinn þagnarskyldu og trúnaði varðandi (Forseti hringir.) upplýsingar sem skiptu máli varðandi Icesave-málið?