138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Sú umræða sem hér fer fram undir þessum lið er alveg með ólíkindum, frú forseti. Hér er verið að ræða lið sem samkvæmt þingsköpum er ætlaður þingmönnum til að ræða störf þingsins, tala hver við annan, spyrja hver annan út í málefni sem snerta þingið, þess vegna orð eða gjörðir ráðherra (Gripið fram í: Nei.) af því að ... Framkvæmdarvaldið starfar í umboði Alþingis ef ég veit rétt. Það er kannski kominn tími til að endurskoða og gera alvöru úr því að slíta algjörlega þann naflastreng sem er á milli ráðherra og þingmanna. Ég held að menn ættu að skoða það vandlega.

Að við skulum þurfa að hlusta á ráðherra koma upp og kvarta og kveina yfir því að verið sé að spyrja út í mál sem eru óþægileg fyrir framkvæmdarvaldið er vitanlega algjörlega óþolandi. Það á ekki að hlusta á þetta væl, þetta er ekkert annað en væl í ráðherrunum.