138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

178. mál
[15:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég var mjög ánægður að heyra svör frá hæstv. menntamálaráðherra um að menn séu að vinna í þessu en menn ættu að skoða þennan hóp miklu nánar. Erlendar kannanir gefa til kynna að 7% af þjóðinni kunni ekki að lesa. Það þýðir ekkert að setja þann hóp í bóknám án þess að gera miklar ráðstafanir. Menn þurfa að finna nám sem byggir miklu meira á starfsreynslu, t.d. hvernig afgreiðsla gengur fyrir sig í verslun, vinna á lager o.s.frv. Sérstaklega þurfa menn að byggja upp sjálfstraust þeirra sem hafa fallið úr skóla og jafnvel orðið atvinnulausir því að það að falla úr skóla og það að verða atvinnulaus brýtur manninn niður. Kannanir hafa sýnt að um 80% af þeim sem hafa verið hálft ár utan vinnumarkaðar fara aldrei að vinna aftur.

Hér er um að ræða hóp í mikilli hættu og ég skora á hæstv. ráðherra að taka alvarlega á því að finna handa honum eitthvert nám við hæfi.